Viðtalið: Birgir Leifur Hafþórsson, GKG.
Um miðjan maí, þegar allt var að vakna til lífsins þetta herrans ár 2011 fór Golf 1 af stað með að taka viðtöl við íslenska kylfinga, þ.e. leggja fyrir þá á fjórða tug staðlaðra spurninga, með örlitlum frávikum í hvert sinn. Hér fer eitt viðtalanna, en viðmælandi er Birgir Leifur Hafþórsson, sem tekur þátt á 1. stigi PGA Q-school í Pinehurst, Norður-Karólínu, þessa dagana. Eftir 2. dag er Birgir Leifur í 11. sæti og enn lítur allt vel út með að hann komist á 2. stig úrtökumótsins. En hér eru spurningarnar og svör Birgis Leifs:
Fullt nafn: Birgir Leifur Hafsteinsson.
Klúbbur: GKG og GL.
Hvar og hvenær fæddistu? Ég fæddist á Akranesi 16. maí 1976, en er hálfur Vestmannaeyingur (í móðurættina).
Hvar ólstu upp? Ég var á Akranesi til 20 ára aldurs. Frá þeim tíma hef ég lifað ferðatöskulífi og er búinn að gera það meira og minna síðan 1997. Þetta er búið að vera roslega gaman.
Hverjar eru fjölskylduaðstæður? / Er fjölskyldan í golfi? Ég er kvæntur Elísabetu Halldórsdóttur og á 11 ára son, Inga Rúnar og 7 ára dóttur, Birgittu Sóley. Konan alltaf að reyna að byrja, en hún virðist ekki finna tíma í það því barnauppeldið hefir algeran forgang. Ingi Rúnar sonur minn spilaði á fyrsta meistaramótinu sínu í GKG og stelpan byrjuð að slá líka, rölta með og líkar vel á golfvellinum.
Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég byrjaði 12 ára að þvælast á golfvellinum upp á Skaga.
Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Það var eiginlega algert slys. Ég þvældist upp eftir á golfvöllinn með æskuvinunum. Annars var ég harður fótboltastrákur, því það þótti ekkert töff að vera í golfi.
Hvað starfar þú? Ég hef verið atvinnumaður í golfi frá árinu 1997. Ég hef ferðast um og sinnt svolítillri golfkennslu. Ég var með golfþátt fyrir Stöð 2 Sport. Svo hef ég verið andlit Golfsumarsins, sem m.a. var styrkt af Icelandair Golfers og Vodafone, en allir gátu tekið þátt með því að skrá inn hring og svo var veglegur vinningur dreginn út í hverri viku. Ég vann aðeins í hugmyndafræðinni á bakvið þetta en hugmyndin var sú að allir ættu að geta tekið þátt og orðið betri kylfingar.
Hvort finnst þér skemmtilegra að spila á skógar- eða strandvelli? Það jafnast ekkert á við skemmtilegan strandvöll í Skotlandi og Írlandi. Það er líka gaman að spila góðan skógarvöll. Þetta er sitthvor leikurinn.
Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Mér líkar bæði jafnvel. Aftur, þetta er sitthvor leikurinn. En það er alltaf skemmtilegra að einhverju, sem fær það besta út úr spilaranum, þannig að hann verður djarfari. Höggleikurinn er meiri prósentuleikur og það má gera færri mistök. Það er allt of lítið spilað af holukeppni. Golf var í upphafi bara holukeppni og það er synd að þróunin hefir verið í öfuga átt.
Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Vestmannaeyjarvöllur. Það er sérstök ástæða fyrir því en ættin mín gaf landið undir seinni 9. Það er ótrúlega gaman að spila þar.
Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Það var besta upplifunin þegar ég spilaði í fyrsta skipti á Old Course á St. Andrews. Minningin er svo sterk, því ég var bara 16 ára og spilaði hörkuvel í móti og svo bara allt við það. Sagan er svo sterk. Svo kann ég líka við Ballybunion á Norður-Írlandi (en báðir eru strandvellir).
Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Old Prestwick í Skotlandi – Old Course. Það er m.a. vegna þess að á vellinum er blind par-3 hola, 150 m til vinstri og maður sér ekkert inn á flöt.
Hvað ertu með í forgjöf? Ég hef ekki fylgst með forgjöfinni minni síðan ´97 – veit það hreinlega ekki Hún var 3,5 þegar í fór í atvinnumennskuna.
Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? 58 á Akranesvelli, 2010.
Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu? Að ná skori upp á 58 á og hafa verið fyrstur Íslendinga til að tryggja mér kortið á Evróputúrinn.
Hvaða snakk ertu með í pokanum? Epli, banana, gróft brauð með skinku og osti, hnetubland, rúsínur og golfbar frá Natures Valley. Það mikilvægasta er að reyna að borða á þriggja brauta fresti.
Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Já, fótbolta og handbolta með ÍA.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Einn af réttunum hjá konunni. Ætli ég segi ekki bara ítalskur parmesankjúklingur hjá konunni.
Uppáhaldsdrykkur? Íslenskt vatn.
Uppáhaldstónlist? Allt mögulegt – núna held ég mikið upp á Jón Jónsson.
Uppáhaldskvikmynd? Shawshank Redemtion, hún er bara klassík og Seven með Brad Pitt.
Uppáhaldsbók? Svartur á leik eftir Stefán Mána og One Magical Sunday, sem fjallar um það þegar Phil Mickelson vann sinn fyrsta græna jakka og sinn fyrsta stóra titil. Í bókinni er lýst í smáatriðum hvað hann var að hugsa. Þetta gaf mér vítamínsprautu í golfinu.
Uppáhaldskylfingur – nefna einn karl- og einn kvenkylfing? Kk: Rory McIlroy Kvk: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ólafía Þórunn er góð stelpa, sem hefir ótrúlega hæfileika. (sagt áður en Ólafía Þórunn vann Íslandsmeistaratitla sína 2011).
Hver er uppáhaldskylfan þín? 7-járnið er besti vinur minn.
Ertu hjátrúarfullur? Ég get ekki sagt það… en ef ég er ekki búinn að fá birdie lengi skipti ég um bolta. Ég lít á golfboltana eins og varamannabekk í pokanum (hugsa kúlurnar eins og fótboltalið) eða eins og Colin Montgomerie sagði, það er ein hola fyrir hverja kúlu.
Hvert er meginmarkmiðið í golfinu? Aðalmarkmiðið að bæta mig og verða betri kylfingur en ég var í gær – um leið sú þörf hverfur þá pakka ég saman – ef ég hef ekki lengur áhuga að bæta mig þá verð ég að finna mér annan tilgang. Ef ég yrði að velja mér eitthvað annað að gera yrði ég örvhentur kylfingur.
Meginmarkmið í lífinu? Það er mjög svipað og í golfinu: að verða betri maður en ég var í gær, að bera þann boðskap til barnanna minna, að vera jákvæður og koma fram við náungann eins og maður vill að sé komið fram við sig.
Hvað finnst þér best við golfið? Hversu fjölbreytt það er. Það er fjölbreytileikinn og eiginlega er golfið eins og lífið að þessu leyti. Maður er líka alltaf að slást við hugann. Golfið er u.þ.b. 70 högg á hring og hvert högg tekur u.þ.b. 30 sekúndur. Hringurinn er 4 1/2 tími þannig að það er margt, sem gerist í hausnum. Og svo er endalaust rými til að bæta sig.
Hvað er í pokanum hjá þér? 14 golfkylfur – kúlur – hanski – og tí og stundum regngalli og regnhlíf og ekki má gleyma nestinu.
Spurning frá kylfingi: Hefur þú spilað Ásatúnsvöll? (Nota Bene: Það var formaður Golfklúbbs Ásatúns, Sigurjón Harðarson, sem bar upp spurninguna).
Svar Birgis Leifs: Ég er alltaf að spila sömu vellina – þannig að ég hef ekki haft tíma til að spila Ástúnsvöll. En mér finnst góðir 9-holu golfvellir skemmtilegir.
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024