Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 17. 2012 | 17:55

GH: Kristín Magnúsdóttir fór holu í höggi á Katlavelli á Húsavík!

Sá skemmtilegi atburður átti sér stað á Katlavelli, á Húsavík, laugardaginn 7. júlí s.l. að Kristín Magnúsdóttir fór holu í höggi.

Það var á par-3 holunni á 5. braut sem draumahöggið var slegið. Brautin ber heitið Sprænugil og er 125 metra af rauðum. Berjalyng og móar eru til beggja hliðar þannig að höggið verður að vera beint og krefst þ.a.l. nákvæmni, annars er það tapað.

5. brautin, par-3 á Katlavelli á Húsavík. Mynd: GH

Aftan við flötina er hár bakki með glompu og geta menn lent í vandræðum ef upphafshöggið endar þar.

Kristín var ekki í vandræðum með höggið góða. Kúlan lenti á flatarkanti og rúllaði síðan ofan í holu.

Við höggið notaði Kristín 5-járn.

Golf 1 óskar Kristínu innilega til hamingju með draumahöggið!