Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 22. 2012 | 13:30

Lokahollið – Adam Scott og Graeme McDowell – á Opna breska í ár farið út!

Nú rétt í þessu kl. 13:30 að íslenskum tíma var síðasta hollið á þessu 3. risamóti ársins að fara út: Adam Scott, sem leiðir á 11 undir pari og Graeme McDowell á 7 undir pari.  Hafa þá allir keppendur Opna breska 2012 hafið lokahringinn og baráttuna.

Í hollinu á undan forystumönnunum eru Bandaríkjamennirnir Tiger Woods, á 6 undir pari og Brandt Snedeker, sem var í forystu á 2. degi en deilir nú 2. sæti ásamt G-Mac á 7 undir pari, eftir hring vonbrigða upp á 73 högg í gær.

Í öðru hollinu á undan Scott og McDowell eru þeir Ernie Els og Zach Johnson, sem deila 5. sætinu á 5 undir pari.

Margir hafa nú þegar lokið leik í dag – menn sem spáð var sigri eins og Lee Westwood en hann lauk keppni á svekkjandi skori upp á samtals  6 yfir pari (73 70 71 72) og draumurinn um 1. sigurinn á risamóti fyrir bí. … að sinni. Westwood er sem stendur T-50 (en ath. margir eiga eftir að ljúka leik þannig að sætistalan getur breyst)

Rory McIlroy átti líka enn eitt mót vonbrigða á árinu, en a.m.k. komst hann þó í gegnum niðurskurð í þetta sinn, en…..  árangur hans þó ekkert til að hrópa húrra fyrir: hann var á samtals 8 yfir pari (67 75 73 73).  Rory er sem stendur T-61 (en eins og gildir um Westwood getur sætistala hans breyst).

Þessir tveir framangreindu McIlroy og Westwood eru nú einu sinni nr. 2 og 3 á heimslistanum – Nr. 1, Luke Donald hefir ekki enn lokið leik en hann er meðal topp-20, sem stendur T-13.

Hér í lokin er e.t.v. vert að minnast á frækinn kappa, sem hefir staðið sig feykivel á Opna breska: Spánverjann Miguel Ángel Jiménez – hann hefir lokið leik á sléttu pari (71 69 73 67), átti glæsihring upp á 3 undir pari í dag.  Það sem er líka frábært hjá Jiménez er að hann var með 36, 1-pútt í mótinu sem þýðir 9 einpútt per hring.  Geri aðrir betur! Ekki slæmt hjá þessum 48 ára kylfingi!