Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 24. 2012 | 20:00

Íslandsmótið í höggleik hefst á fimmtudag – Kristján Þór: „Verður gott mót fyrir Keili“

Íslandsmótið í höggleik fer fram á Hellu á 60. afmælisári klúbbsins, dagana 26.-29. júlí n.k. Allir bestu kylfingar landsins eru skráðir til leiks í Íslandsmótið í ár og er mikil eftirvænting fyrir mótinu, sem er það stærsta, sem fram fer hér á landi á ári hverju. Axel Bóasson úr Keili og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, úr GR, eiga titil að verja í mótinu í ár.

Þetta er í fjórða sinn sem Íslandsmótið fer fram á Strandarvelli. Mótið fór fram árin 1991, 1995 og 2002 á Strandarvelli. Úlfar Jónson, GK og Karen Sævarsdóttir, GS sigruðu á Hellu árið 1991, Björgvin Sigurbergsson, GK og Karen Sævarsdóttir, GS, léku best árið 1995 og árið 2002 voru þau Sigurpáll Geir Sveinsson, GA og Ólöf María Jónsdóttir, GK hlutskörpust. Þess mætti geta að Sigurpáll Geir (nú GK), tekur þátt í mótinu en Ólöf María ekki.

Golf 1 tók stutt viðtal við klúbbmeistara Keilis 2012, Kristján Þór Einarsson, en Golfklúbburinn Keilir hefir átt marga Íslandsmeistara í höggleik í gegnum árin.

Golf 1: Hvernig leggst Íslandsmótið í höggleik í þig?
Kristján Þór: Það leggst bara mjög vel í mig og ég tel mig vera tilbúinn í að takast á við þetta verkefni.

Golf 1: Hvernig finnst þér Strandarvöllur?
Kristján Þór: Völlurinn er skemmtilegur og gaman að sjá að það er loksins komið almennilegt röff á vellinum á nokkrum stöðum. Grínin eru ágæt, þau verða örugglega betri með hverjum degi núna en þau skoppa aðeins núna og eru pínu gróf sum þeirra.

Golf 1: Telur þú að GK-ingum takist að verja titilinn í ár?
Kristján Þór: Já ég hef fulla trú á að Íslandsmeistaratitillinn verði í höndum Keilismanns. Keilir á marga sterka kylfinga og ég hef trú á því að þetta verði gott mót fyrir Keili.

Golf 1: Hvað þarf til, til þess að sigra á Íslandsmóti, að þínu mati?
Kristján Þór: Í fyrsta lagi þarf að halda boltanum í leik þar sem að það er komið röff á völlinn og á nokkrum stöðum er það mjög þykkt og síðan snýst þetta um að halda coolinu í kringum grínin og gera sem fæst mistök.