Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 28. 2012 | 00:30

Íslandsmótið í höggleik: Bergur Rúnar Björnsson frá Ólafsfirði lauk keppni í gær

Á Íslandsmótinu í höggleik taka þátt allir af bestu kylfingum Íslands. Það skemmtilega við mótið er að kylfingarnir koma allsstaðar af landinu.  Meðal þeirra sem þátt tóku í ár var Bergur Rúnar Björnsson, GÓ, frá Ólafsfirði.  Hann komst því miður ekki í gegnum niðurskurð varð í 105. sæti.  Hann var einn af 54 þáttakendum mótsins, sem ekki komust í gegnum niðurskurð, en skorið var niður í dag. Einungis 78 af 123 í karlaflokki komust áfram og 18 af 27 í kvennaflokki.  Golf 1 tók örstutt viðtal við Berg Rúnar:

Golf 1: Hvað var það sem gekk ekki upp hjá þér að þessu sinni?

Bergur Rúnar: Ég var einfaldlega að spila illa. (Innskot: Bergur Rúnar spilaði á samtals 25 yfir pari,  165 höggum (83 82) – fékk 2 fugla; 13 pör; 16 skolla og 5 skramba – Niðurskurður miðaðist að þessu sinni við samtals 16 yfir par í karlaflokki, samtals 156 högg og því var Bergur Rúnar 9 höggum frá því að komast í gegnum niðurskurð).

Golf 1: Hefir aðstaðan til æfinga ekki verið góð á Ólafsfirði t.a.m. vegna veðurs?

Bergur Rúnar: Það er ekkert að aðstöðunni. Æfingaaðstaðan er fín. Ég hef bara ekki verið að æfa mikið undanfarið, var t.a.m. á sjó allan júní.

Golf 1: Ertu þá á leiðinni heim aftur til Ólafsfjarðar?

Bergur Rúnar: Nei, það er alltaf gaman á Íslandsmótum. Ég ætla að vera hér alla helgina og fylgjast með.

Golf 1 tekur undir með Bergi Rúnari – Það er SVAKALEGA gaman að fylgjast með okkar bestu kylfingum og hvetur alla til að leggja leið sína að Strandarvelli á Hellu nú um helgina á Íslandsmótið í höggleik!!!