Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 30. 2012 | 14:00

Hver er kylfingurinn: Inbee Park?

Inbee Park sigraði í gær á Evían Masters.  Hún hefir eflaust fremur viljað sigra mótið 2013 því þá telst Evían mótið til risamóta og hún er því síðasti kvenkylfingurinn sem sigrar Evían áður en það verður risamót.  En hver er þessi kylfingur frá Suður-Kóreu?

Inbee fæddist í Seúl í Suður-kóreu 12. júlí 1988 og er því nýorðin 24 ára.  Hún byrjaði að spila golf 10 ára. Eftir að hún fluttist til Bandaríkjanna sigraði hún í 9 mótum AJGA (stytting á American Junior Golf Association). Svo varð hún í 2. sæti á US Women´s Amateur. Hún sigraði US Girls Junior 2002 (14 ára) og varð í 2. sæti bæði 2003 og 2005.

Inbee var boðið á Kraft Nabisco risamótið í boði styrktaraðila meðan hún var enn áhugamaður á árunum 2004-2006 og tók þar að auki 3 sinnum þátt í LPGA Takefuji Classic og varð 2var meðal 10 efstu.

Inbee Park

Árin sem atvinnumaður

2006

Árið 2006 gerðist Inbee Park atvinnumaður. Eftir útskrift frá Bishop Gorman High School í Las Vegas, Nevada, bað Park um undanþágu til að mega spila á LPGA 17 ára en reglur LPGA kveða á um að keppandi verði a.m.k. að vera orðin 18 til að mega keppa. LPGA synjaði beiðni Park, þannig að hún skráði sig í University of Nevada, Las Vegas þar sem hún býr en hætti fljótlega og hóf ferilinn á Duramed Futures Tour  þar sem aldursmörkin eru 17 ára.   Árið 2006 varð hún 11 sinnum meðal 10 efstu á mótum Futures Tour. Hún varð nr. 3 á peningalistanum og hlaut keppnisrétt á LPGA fyrir keppnistímabilið 2007.

2007

Á nýliðaári sínu á LPGA varð Inbee Park 4. á  U.S. Women’s Open og T-2 á Safeway Classic.Hún varð nr. 37. á peningalistanum og sú 4. besta af nýliðum þess árs.

2008

Þann 29. júní 2008 sigraði Inbee á US Women´s Open í Interlachen Country Club í Edina, Minnesota og var það fyrsti sigur hennar á LPGA…. og ekkert smá sigur svona í fyrsta sinn …. fyrsti sigur hennar var sigur á risamóti. Hún var aðeins 19 ára þá og fór í sögubækurnar, fyrir að vera sú yngsta til að sigra mótið. Sigurskorið var  72-69-71-71  samtals 9 undir pari og þar með vann hún Helen Alfredsson frá Svíþjóð með 4 höggum.

2009
Eftir alla velgengnina 2008 átti Inbee erfitt 2009 og varð aðeins 4 sinnum meðal efstu 10 og varð í 50. sæti á opinberum peningalista LPGA.

2010 og 2011

Þessi ár voru ágætis ár á ferli Park sem atvinnumanns. Árið 2010 var hún t.a.m. með 10 efstu í öllum 4 risamótunum, vann tvívegis í Japan og var í 12. sæti Rolex-heimslistans.

2012

Nú í ár sigraði hún loks í móti og aftur engu smámóti heldur sjálfu Evían Masters í Frakklandi nú í gær 29. júlí 2012.   Þar áður í júní var hún í hörku-4-stúlkna umspili á Manulife Financial Classic, en þar var það Brittany Lang sem hafði sigur. Það var því komið að Inbee að vinna aftur!

Heimild: Wikipedia