Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 1. 2012 | 20:15

PGA: Luke Donald: „The come from behind thing is a 2012 thing.“

Í aðdraganda Bridgestone heimsmótsins, sem hefst á morgun og er hluti af PGA mótaröðinni var nú í hádeginu (að íslenskum tíma) haldinn blaðamannafundur með öllum helstu kylfingum heims, sem þátt taka í mótinu; byrjað á Adam Scott og síðan tekið viðtal við Luke Donald.  Seinna um daginn  mættu síðan enn aðrir t.a.m. Ernie Els, Keegan Bradeley og Tiger Woods.

Einn þeirra sem svaraði spurningum blaðamanna var Luke Donald, nr. 1 á heimslistanum.

Hann sagðist vera spenntur fyrir Bridgestone mótinu, til þess að vinna það yrði að dræva vel og gera allt vel og mótið yrði góð æfing fyrir næstu viku, þegar PGA Championship risamótið færi fram. Luke sagði að sér hefði alltaf gengið vel í Akron, Ohio, þar sem mótið fer fram og völlurinn þar hentaði leik sínum.  Hann hefði náð góðum árangri þar, en ekki náð að sigra enn og það vonaðist hann til að breyttist í þessari viku.

Líkt og Adam Scott fékk Luke Donald spurningar um gengi sitt á Opna breska.  Hann sagði að topp-5 árangur þar (en Luke deildi 5. sæti með Graeme McDowell) hefði verið gott til að gleyma vonbrigðunum eftir Opna bandaríska. Á Opna bandaríska komst Luke Donald, kylfingur nr. 1 í heiminum ekki einu sinni í gegnum niðurskurð (spilaði á 79 72). Hann sagðist eftir þann tíma hafa varið meiri tíma á æfingasvæðinu og það hefði verið fljótt að skila sér. Slátturinn væri kominn aftur, sem sýndi sig í tölfræði upp á 75% hittar brautir og 75% hittar flatir á Opna breska.

Hann sagðist hafa farið fullur sjálfstrausts inn í Opna breska og legði nú aðallega stund á líkamlegu hliðina, en sú andlega hefði líka styrkst mikið og hann hefði tekið mikið af jákvæðu með sér frá Opna breska.

Aðspurður hvort hann væri hræddur um að tapa 1. sætinu á heimslistanum til Tiger, svaraði hann því svo til að hann væri hreykinn af veru sinni í 1. sætinu og hversu lengi hann hefði setið í því – hann réði ekki við neitt nema sjálfan sig og leik sínum úti á velli og vel gæti verið að Tiger væri að koma aftur, hann hefði þegar sigrað á 3 PGA mótum í ár.

Aðspurður hvar í röðinni hann teldi PGA Championship risamótið vera sagði hann að það væri líklega það auðveldasta af öllum risamótunum 4. Það væri bara svipað hverju öðru PGA móti og aðstæðurnar svipaðar og þar finndust og á bandarískum völlum, einkum frábærar flatir en ekkert væri reynt að hafa það sérlega erfitt og kannski findist sér það, það sísta vegna raðarinnar en mótið er síðasta risamótið á árinu.

Luke Donald sagðist alltaf spila völlinn eins og ætlast væri til þess að hann væri spilaður og spilaði sjaldan djarft – þegar hann væri í forystu fylgdi hann góðri reglu frá Nick Faldo sem væri að keppast við að ná sem flestum fuglum en reyna ekki að verja það sem náðst hefði. Sókn væri besta vörnin.

Meðal síðustu spurninga á blaðamannafundinum var hvort hann hefði nokkru sinni tapað niður svona dramatískt forystu eins og Adam Scott á Opna breska og Luke Donald sagðist mikið hafa hugsað um það.  Líklega væri það í móti fyrir 3 árum á Wentworth en þar hefði hann verið í forystu þegar óspilaðar voru 2 holur og hann fékk skramba á 17. og reyndar fugl á 18. en það dugði ekki og hann tapaði mótinu í bráðabana.

Þannig að þetta kemur fyrir heimsins bestu kylfinga. Síðan sagði Luke Donald að eiginlega lærði maður meira af mistökum sínum en sigrum.

Hins vegar áleit hann það að einhver væri í forystu allt mótið og síðan kæmi einhver og steldi sigrinum vera tísku 2012, sem er í samræmi við grein sem birtist hefir hér áður á Golf 1 og sjá má með því að SMELLA HÉR:  

Þar eru nefnd nokkur dæmi á árinu þar sem kylfingar hafa leitt allt mótið og einhver „kemur síðan aftan að“ viðkomandi kylfingi og stelur sigrinum – í ofangreinda grein mætti bæta dæmunum þegar Ernie Els kom aftan að Adam Scott og „stal“ sigrinum á Opna breska – eins mætti líta til nýafstaðins Íslandsmóts í höggleik, þar sem Rúnar Arnórsson, GK var búinn að vera í forystu mestallt mótið og lokahringinn en tapaði leiknum á 16. holu Strandarvallar fyrir Haraldi Franklín Magnús, GR. Sama gerðist hjá konunum – Anna Sólveig Snorradóttir, GK hafði sigurbragðið á tungunni á 18. braut en fékk skramba á 18. og Valdís Þóra Jónsdóttir, GL stóð uppi sem Íslandsmeistari.

Luke Donald nefndi það sem Golf 1 hefir nefnt tískuna 2012 – að stela sigrinum á síðustu metrunum „The Come from behind thing.“   Hann sagði ennfremur í viðtalinu í dag „The come from behind thing is a 2012 thing.“  Hljómar dónalega en er það ekki…. sett í rétt samhengi.

Luke Donald fannst það merki um hversu breiður hópurinn væri að verða af góðum kylfingum á PGA og hversu erfitt væri að halda forystu og sigra (líkt og þróunin er hér á landi!) Luke lauk viðtalinu með að segja að þegar litið væri á það, sæjist hversu góður kylfingur Tiger hefði verið hér áður fyrr og þeim meiri virðingu bæri hann fyrir honum að halda sér stöðugt í forystunni.