Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 22. 2012 | 18:00

Það að David Lynn sleppti að spila í Wyndham mótinu kostar hann e.t.v. sæti í Ryder Cup

David Lynn varð í 2. sæti á PGA Championship, 4. og síðasta risamóti ársins 2012.

Hann spilaði hins vegar ekki á Wyndham Championship og það kynni að reynast honum dýrkeypt.

Spánverjinn Sergio Garcia, sem sigraði í mótinu „sparkaði nefnilega Lynn út“ úr Ryder Cup liði Evrópu.

Jafnvel þótt David Lynn spili í síðasta mótinu sem veitir Ryder Cup stig og jafnvel sigri í þá er óvíst hvort það dugi til að tryggja honum sæti í liðinu.

„Það lítur út fyrir að ég hafi gert mistök – ég hefði átt að spila í (Wyndham) mótinu,“ sagði Lynn, sem er 38 ára.

Fjarlægur möguleiki er síðan að fyrirliði evrópska Ryder Cup liðsins, José Maria Olázabal velji Lynni í liðið, en það þykir fremur ósennilegt.