Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 25. 2012 | 11:20

Íslandsbanki fyrirtækjameistari í golfmóti Forskots

Golfmót Forskots, styrktarsjóðs fyrir íslenska afrekskylfinga, fór fram í fyrradag, 23. ágúst 2012, á Grafarholtsvelli hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Fjögur fyrirtæki mynda styrktarsjóðinn Forskot, sem hefur það að markmiði efla íslenskt golf og styðja við bakið á okkar bestu kylfingum. Fyrirtækin Eimskip, Icelandair, Íslandsbanki og Valitor standa að baki Forskoti.

Sigursveit Íslandsbanka í golfmóti Forskots 2012. Mynd: GSÍ

16 kylfingar skipuðu hverja sveit og giltu bestu tólf skorin hjá hverri sveit. Leikið var með punktafyrirkomulagi. Íslandsbanki fór með sigur af hólmi í mótinu með alls 440 punkta. Eimskip varð í öðru sæti með 435 punkta og Icelandair varð í þriðja með 430 punkta.

Afrekskylfingarnir Ólafur Björn Loftsson úr Nesklúbbnum, Rúnar Arnórsson úr GK, Tinna Jóhannsdóttir úr GK og Þórður Rafn Gissurarson úr GR léku fyrir hvert lið. Ólafur Björn lék best afrekskylfinganna en hann lék á 66 höggum eða fimm höggum undir pari. Þórður kom næstur á 67 höggum.

Í einstaklingskeppninni var það Kristján Elvar Guðlaugsson úr GKG, sem lék fyrir hönd Íslandsbanka, sem fór með sigur af hólmi en hann nældi sér í 42 punkta. Steinar Helgason úr GR, sem keppti fyrir Icelandair varð annar með 40 punkta og Helgi Ingólfur Eysteinsson úr GR, og keppandi fyrir Icelandair, varð þriðji á 38 punktum.

Stefnt er að því að mótið verði árlegt en keppt er um glæsilegan farandbikar og nafnbótina Fyrirtækjameistari Íslands í golfi.

Heimild: GSÍ