Ragnheiður Jónsdóttir | september. 5. 2012 | 20:00

Love leitar innblásturs hjá Michael Jordan

Bandaríski Ryder Cup fyrirliðinn Davis Love III hefir gefið út að hann muni leita til eins besta íþróttamanns Bandaríkjanna, Michael Jordan til þess að veita liði sínu innblástur.

Fred Couples og Michael Jordan

Jordan, sem er sexfaldur NBA meistari og körfuboltastjarna, er forfallinn kylfingur og hefir áður verið fyrirliðum t.a.m. í Forsetabikarnum til aðstoðar.

Love hefir trú á að hinn 49 ára Jordan, sem er goðsögn í Chicago – sem er sá staður þar sem Ryder Cup fer fram á í ár – muni veita dýrmætan innblástur í bandaríska búningsklefanum í Medinah.

Þegar Love tilkynnti val fyrirliða í gær upplýsti hann jafnframt að hann hefði sett sig í samband við Jordan um afskipti þess síðarnefnda af Ryder Cup.

„Ég talaði við hann,“ sagði Love. „Michael ætlar að aðstoða Fred [Couples, sem er einn af aðstoðarfyrirliðum Love] og vera til staðar til að veita innblástur.“

„Ég bað Michael um þetta fyrir nokkrum vikum. Eitt af því besta sem ég sá í Ryder Cup var þegar Michael var í golfbílnum með Tom Kite. Hann kom til þess að horfa á Freddie og mig spila og mér fannst það svalt.“

„Þannig að ég vil að lið mitt, líkt og Freddie og ég upplifðum, sjái Michael. Í staðinn fyrir að hann laumupúkist í áhorfendastúkunum þá vil ég að hann láti sjá sig og ég vil að hann sé með okkur í liðsherberginu því hann er frábær innblástur.“

Heimild: ESPN