Ragnheiður Jónsdóttir | september. 29. 2012 | 12:30

Ryder Cup 2012: Colsaerts hetja evrópska liðsins

Eftir aðeins 1 leik í Ryder Cup er Nicolas Colsaerts þegar orðinn Ryder Cup stjarna – hann bjargaði Evrópu eftir hádegi í gær frá algjöru bursti.

Fyrsti kylfingur frá Belgíu til að spila í Ryder keppninni fékk ótrúlega 8 fugla og 1 örn í síðasta fjórbolta dagsins í Chicago.

Félagi hans í evrópska liðinu Lee Westwood, sem nú tekur þátt í 8. keppni sinni lagði ekki einn einasta fugl í púkkið, en saman komu þeir færandi hendi fyrir Evrópu og urðu  til þess að staðan eftir gærdaginn er 5-3.

Colsaerts-Westwood unnu Tiger Woods og Steve Stricker á vellinum í Medinah þar sem Tiger hefir spilað í 2 risamótum og unnið bæði.  Tiger tapaði báðum leikjum sínum í Ryder keppninni líkt og hann gerði 1999, 2002 og 2004.

Aumingju Tiger og Stricker því í gærmorgun urðu þeir líka að sætta sig við ósigur fyrir „enska liðinu“ í liði Evrópu Ian Poulter og Justin Rose.

Tiger kom aðeins tilbaka í fjórboltanum með 3 fuglum í lokin en Nicolas Colsaerts var alger ofjarl hans. Colsaerts er á leið með að verða með frægari Belgum.

„Þetta var bara gaman,“ sagði Colsaerts. „Ég hef aldrei skemmt mér svona vel og ég vil meira.“

„Ég hef dreymt um þetta en það er erfitt að ímynda sér að manni muni ganga vel – en svona er nú bara holukeppnin.“

Sigurinn er líka eflaust sætur í ljósi þess að ýmsir voru með efasemdir um Colsaerts fyrir keppnina – en hann sjálfur hefir þegar sýnt og sannað að hann var fyllilega trausts Olazábal verður.