Ragnheiður Jónsdóttir | október. 15. 2012 | 12:00

PGA: Allra augu á efstu 125 á peningalistanum

Það er kunnugra en frá þurfi að segja að 125 efstu á peningalista PGA Tour hljóta kortin sín fyrir næsta keppnistímabil.

Því er það svo að í lok hvers tímabils er spennandi að fylgjast með þeim sem er í 125. sæti þ.e. síðasta manni inni sem heldur keppnisrétti sínum á PGA Tour og þeim sem eru rétt fyrir ofan og neðan 125. sætið.

Í hverju PGA Tour mótinu á fætur öðru, síðla á keppnistímabilinu stíga allt í einu fram frekar óþekkt nöfn og spila golf lífs síns, því það er jú lífsspursmál að halda sér í einhverju af efstu 125 sætunum.

Fyrir Frys.com Open mótið sem lauk í San Martin í Kaliforníu í gær með sigri Svíans Jonasar Blixt var bandaríski kylfingurinn Jeff Maggert í 125. sætinu. Maggert varð að fara í Q-school á síðasta ári og flaug í gegn en er að reyna að halda sér inni í þetta sinn með góðri frammistöðu á peningalistanum. (Sjá kynningu Golf 1 á Jeff Maggert með því að SMELLA HÉR: ) Hann fór upp í 119. sætið eftir að hafa hlotið  $72,500 í verðlaunafé í gær meðan Kevin Chappell og Gary Christian féllu báðir niður fyrir 125. sætið, þar sem þeir komust hvorugir í gegnum niðurskurð.

Tveir kylfingar færðust þess í stað á topp-125 þ.e. nýliðinn Jason Kokrak fór úr 167. sætinu í 117. sætið og Rod Pampling skreið úr 126. sætinu, sem enginn vill vera í, í það 124.

Nokkur stór nöfn í golfheiminum eru enn utan topp-125 listans þ.á.m.: Retief Goosen (Nr. 131), Justin Leonard (Nr. 138), John Daly (Nr. 141) og Camilo Villegas (Nr. 152).

Billy Mayfair er nú í eftirsótta 125. sætinu, sem er það síðasta til að veita keppnisrétt á næsta keppnistímabili PGA Tour.

Til þess að sjá peningalista PGA Tour SMELLIÐ HÉR: 

Heimild: Golfweek