Tinna Jóhannsdóttir, GK. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 24. 2012 | 10:30

Tinna og Cheyenne Woods taka þátt í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð kvenna

Cheyenne Woods, 22 ára frænka nr. 2 á heimslistanum, Tiger Woods og fyrrum liðsfélagi Ólafíu Þórunnar „okkar“ Kristinsdóttur í Wake Forest hefir tilkynnt að hún ætli sér í úrtökumót fyrir Evrópumótaröð kvenna í von um að hljóta kortið sitt fyrir 2013 keppnistímabilið.  Í sömu hugleiðingum er Tinna Jóhannsdóttir í Golfklúbbnum Keili, Hafnarfirði en hún ætlar öðru sinni að reyna að hljóta kortið eftirsóknarverða á Evrópumótaröð kvenna.

Cheyenne Woods

Úrtökumótið nefnist the LET’s Lalla Aïcha Tour School 2013 og fer fram í tveimur stigum; fyrra stigi 6.-9. desember og lokastigið 13.-17. desember 2012.  Leikið er í Al Maaden Golf and Amelkis Golf Club í Marrakech, Marokkó.

Þetta er í fyrsta sinn sem Cheyenne Woods tekur þátt í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina, en í annað sinn sem Tinna reynir fyrir sér.

Cheyenne byrjaði að spila 8 ára og er dóttir Earl Dennison Woods Jr., eldri hálfbróður Tiger. Að sögn var það afi hennar og Earl Woods Sr., sem var fyrstur til að koma kylfu í hönd  hennar þegar hún var barn.  Cheyenne hefir sigrað í meira en 30 mótum áhugamanna og vann m.a. Atlantic Coast Conference Championship titilinn, árið 2011.

Cheyenne spilaði á Evian Masters í boði styrktaraðila í ár og lenti í 50. sæti, sem hún deildi ásamt öðrum. Fyrsti sigur hennar sem atvinnumanns kom í ágúst s.l. á Sun Coast Ladies Series.

Alls eru 232 sem keppa um 33 kort þ.e. keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna á næsta ári. Auk Cheynne og Tinnu taka þátt margir sterkir kylfingar t.a.m. allir liðsmenn sigurliðs Breta og Íra í Curtis Cup: Amy Boulden, Kelly Tidy, Charley Hull, Holly Clyburn og Pamela Pretswell.

Ástalski kylfingurinn Nikki Campbell, sem sigrað hefir á tveimur mótum á japanska LPGA tekur einnig þátt.

Flestir eru þátttakendurnir frá Svíþjóð 33, frá Englandi koma næstflestir 29 og Bandaríkin eru með 17.  Það eru 14 keppendur frá Frakklandi, 12 frá Ástralíu og 11 frá Suður-Afríku og Skotlandi og 10 frá Spáni. Kylfingar margra annarra landa taka einnig þátt s.s. frá Ástralíu, Kína, Kólombíu, Indlandi, Kazahkstan, Kenya, Kóreu, Marokkó, Mexico, Namibíu, Nigeríu, Nýja-Sjálandi, Perú, Rússlandi, Suður-Afríku, Taipei og Thaílandi.

Til þess að sjá þátttakendalistann í heild SMELLIÐ HÉR