Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 1. 2012 | 17:45

Tom Watson segir að notkun á „kústskaftspútterum“ sé ekki golf

Tom Watson telur að notkun á bumbupútterum, sem hann nefnir í háðungarskyni „kústskaftspúttera“ sé ekki golf og þeir veiti kylfingum ákveðið hagræði.

Þeir sem endurskoða golfreglurnar (USGA og R&A) eru taldir munu banna bumbupúttera í árslok, þó bannið komi ekki til framkvæmda að fullu fyrr en 2016.

Meðan að kústskaftspútterar hafa verið til staðar í langan tíma þá hefir notkun þeirra aukist á öllum helstu golfmótaröðum heims nú undanfarið, þ.á.m. meðal margra leiðandi kylfinga, t.d. Adam Scott, sem tókst að skipta yfir í þá löngu með góðum árangri.

Þrír af síðustu 5 risamótameisturum hafa notað langa púttera og þeim fer fjölgandi sem krefjast þess að kústskafta eða bumbupúttarar verði bannaðir.

Áttafaldur risamótameistari Tom Watson er nú á leiðinni til Sydney til að taka þátt í Australian Open á the Lakes golfvellinum, en hann hefir átt sinn djöful að draga þegar kemur að púttum mestallan feril sinn en hefir aldrei freistast til að skipta yfir í „kústsköftin.“

„Ég hugsa að það sem þeir (USGA og R&A) eru að gera – og það er á almannavitorði – sé að banna það að hægt sé að nota pútterinn eins og akkeri í maga viðkomandi kylfings eða á öðrum stað líkamans,“ sagði Watson í viðtali við ástralska fréttamenn í morgun.

„Mér hefir aldrei fundist að pútt með kústskaftspútterum hafi verið golfstroka.“

„Ég er kannski í minnihluta, en eitt af því sem maður sér að kennt er í golfi í Bandaríkjunum, er að mörgum krökkum er kennt að nota langa púttera og ég held að það gefi viðkomandi ákveðið hagræði.“

Hann bætti við: „Hann (kústskaftspútterinn) hefir hjálpað fullt af fólki.“

Hann sagðist hafa prófað kústskaftspútter og púttað þrívegis með slíku skrípatóli.

Margir stuðningsmenn bumbupútterana, s.s. Webb Simpson telja margt annað hafa haft mun meiri áhrif á golfleikinn undanfarið t.a.m. allar tækninýjungarnar í dræverum.

 Heimild: The Age