Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 4. 2012 | 14:30

HSBC framlengdi styrk sinn við WGC-HSBC Champions mótið til næstu 3 ára og hækkaði verðlaunafé um $1,5 milljónir

HSBC bankinn tilkynnti á blaðamannafundi að loknu WGC-HSBC Champions mótinu að bankinn myndi styrkja mótið næstu 3 árin og að verðlaunafé fyrir árið 2013 yrði hækkað um $ 1,5 milljónir.  Þar með er verðlaunapotturinn orðinn $ 8,5 milljónir.

Eins mun WGC-HSBC Champions mótið verða að fullu viðurkennt sem viðburður á PGA Tour og sigurvegari mótsins mun m.a. framvegis fá 3 ára undanþágu til þess að spila á PGA Tour.  (Hrikalega ergilegt eflaust fyrir Poulter, sem ekki fær sjálfkrafa 3 ára framlengingu á keppnisrétti sínum á PGA Tour með sigrinum í morgun!!! …. þar sem breytingarnar koma ekki til framkvæmda fyrr en 2013.)

Þessar breytingar færa heimsmótið í Mission Hills, í Kína á sama stall og þau heimsmót, sem haldin eru í Bandaríkjunum.

Tilkynnt var um breytingarnar á blaðamannafundi í morgun þar sem eftirfarandi voru viðstaddir Giles Morgan, yfirmaður styrkja hjá HSBC bankanum; Tim Finchem, framkvæmdastjóri PGA Tour og George O’Grady, framkvæmdastjóri Evróputúrsins.

Ennfremur var tilkynnt um þá breytingu að mótið verður á næsta ári flutt í Sheshan International Golf Club í Shanghai, þar sem það fór fram í 7 ár (2005-2011). HSBC Champions árið 2013 mun næst fara fram 28.október – 3. nóvember 2013.  .

HSBC Champions mótið fór fyrst fram 2005 og eftirfarandi hafa staðið uppi sem sigurvegarar í því: David Howell (2005); YE Yang frá Suður-Kóreu (2006); Phil Mickelson (2007 og 2009);  Sergio Garcia (2008); Francesco Molinari (2010) og Martin Kaymer (2011).