Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 7. 2012 | 19:30

Nýju stúlkurnar á LET 2012 (32. grein af 34): Carlota Ciganda

Þá er komið að því að kynna spænska kylfinginn Carlotu Ciganda, í nokkrum orðum en hún varð í 3. sæti á Q-school LET á La Manga nú fyrr á árinu.

Carlota fæddist í Pamplona á Spáni, 1. júní 1990 og er því 22 ára. Hún er 1,74 m á hæð með brúnt hár og græn augu. Hún byrjaði að spila golf 5 ára og segir pabba sinn hafa haft mest áhrif á að hún hóf að spila golf.  Frændi hennar er fyrrum fótboltamaðurinn og núverandi fótboltaþjálfarinn José Angel Ziganda. Carlota er mikill aðdáandi tennisleikarans Rafael Nadal.

Carlota var bandaríska háskólagolfinu en hún spilaði golf með golfliði Arizona State University.  Hún átti mjög farsælan áhugamannsferlil; vann m.a. British Amateur Championship 2007 og European Championship 2004 og 2008. Carlota var spænskur meistari á árunum 2000-2006 og var í Spain World Amateur Team 2006 og 2008 og í Solheim Cup liði unglinga á árunum 2005 og 2007. Meðan að hún spilaði með Arizona State skrifaði hún sig í golfsögu skólans þegar hún vann tvö ár í röð Pac-10 Championships árin 2009 og 2010. Sem áhugamaður tók Carlota þátt í ýmsum mótum atvinnumanna m.a. lék hún í  Tenerife Ladies Open, 2005 aðeins 14 ára.

Í maí 2011 gerðist Carlota atvinnumaður, hálfu ári síðar eftir að hafa náð 3. sætinu í Q-school var hún komin á LET. Í júní 2011 tók hún þátt í fyrsta móti sínu sem atvinnumaður og náði strax 2. sætinu en mótið, Tenerife Ladies Match Play, var óopinbert mót á LET. Árið 2011 var hún líka á LET Access Series og sigraði á Murcia Ladies Open.

Á nýliðaári sínu á LET er hún búin að sigra tvívegis annars vegar vann hún í Hollandi og síðan á Suzhou Taihu Ladies Open í Suhou í Kína nú í októberlok.  Hún er meðal þeirra sem enn eiga tækifæri á að verða efst á peningalista LET og nokkuð ljóst er fyrir löngu að hún tekur nýliðaverðlaunin og e.t.v. líka leikmann ársins.

Helstu áhugamál Carlotu eru kvikmyndir, tónlist, íþróttir og að verja tíma með vinum.  Hægt er að fylgjast með Carlotu á Twitter á @Xarlot9