Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 19. 2012 | 07:00

LPGA: Na Yeon Choi sigraði á CME Group Titleholders

Na Yeon Choi sigraði á lokamóti LPGA, CME Group Titleholders. Choi lék á samtals 14 undir pari, 274 höggum (67 68 68 70).  Hún átti 2 högg á þá sem varð í 2. sæti nýliða LPGA árið 2012, löndu sína So Yeon Ryu. Fyrir sigurinn fékk hún sigurtékka upp á hálfa milljón bandaríkjadala (u.þ.b. 60 milljónir íslenskra króna), sem er annað hæsta verðlaunaféð á LPGA. Henni ætti ekki að verða skotaskuld að kaupa sér stórt hús í Orlandó, en hún er að kaupa sér eitt slíkt þessa dagana!  Til þess að sjá viðtal við NY Choi eftir sigurinn SMELLIÐ HÉR:  ….. en þar kom m.a. fram að mamma hennar hefði verið meðal áhorfenda í fyrsta sinn í langan tíma og það var NY mikil hvatning.

So Yeon Ryu spilaði sem sagt á samtals 12 undir pari, 276 höggum (66 72 66 70).

Síðan kom Brittany Lincicome í 3. sæti á samtals 11 undir pari; Karrie Webb varð í 4. sæti á samtals 10. undir pari; Ai Miyazato varð fimmta á samtals 9 undir pari og hin franska Karine Icher varð í 6. sæti á samtals 8 undir pari.

Azahara Munoz, sem á 25 ára afmæli í dag; Shanshan Feng frá Kína; Cristie Kerr og Anna Nordqvist deildu 7. sætinu.

Til þess að sjá úrslitin í heild á CME Group Titleholders SMELLIÐ HÉR: