Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 19. 2012 | 12:45

GOB: Einar Gestur Jónasson nýr vallarstjóri í Bakkakoti

Golfklúbbur Bakkakots hefur ráðið Einar Gest Jónasson sem nýjan vallarstjóra á Bakkakotsvelli. Einar Gestur er þrítugur Húsvíkingur og er menntaður frá Elmwood Collage í Skotlandi í stjórnun og viðhaldi á golfvelli en hann útskrifaðist þaðan árið 2005.

Einar Gestur Jónasson, GOB. Mynd: GOB.

Einar hefur víðtæka reynslu af rekstri og umhirðu 9 og 18 holu golfvalla.  Einar  hefur starfað hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar í rúm 2 ár sem aðstoðarvallarstjóri og  þar áður sem vallarstjóri á Katlavelli á Húsavík í 5 ár frá 2005 til 2010, við mjög góðan orðstír.

Einar Gestur mun leiða allt faglegt starf við umhirðu vallarins ásamt því að skipuleggja og stýra framkvæmdum á fyrirhuguðum breytingum á Bakkakotsvelli.  Stefnt er að því að þessar breytingar verði unnar í skrefum á næstu árum og verður markmið þeirra meðal annars að lengja völlinn og bæta.

Við útfærslu þeirra verður þess þó gætt að Bakkakotsvöllur haldi sínum sérkennum og ennfremur að framkvæmdir raski ekki framgangi spils á núverandi velli. Mun stjórn GOB kynna þessar breytingar fyrir félagsmönnm á opnum félagsfundi næstkomandi vor.

Golf 1 óskar Einari Gesti til hamingju með nýja starfið og óskar honum velfarnaðar!