Ragnar Már Garðarsson, GKG, sigraði glæsilega á 2. móti Unglingamótaraðar Arion banka. Hann var sá eini sem var á samtals skori undir pari eftir 2 keppnisdaga! Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 30. 2012 | 18:15

Veikur Ragnar Már lauk keppni í Miami í dag

Ragnar Már Garðarsson, GKG, lék veikur, þ.e. með hita fyrstu dagana á Orange Bowl International Championship, en hann hefir sökum þess ekki náð að sýna sínar réttu hliðar. Mótið hefir staðið undanfarna 3 daga og var 4. og lokahringurinn spilaður í dag. Þetta er sterkt mót, sem haldið er árlega og þar sem margir af bestu ungu kylfingum í Bandaríkjunum og hvaðanæva úr heiminum keppa á. Mótið veitir mörg stig til heimslista áhugamanna.

Þrátt fyrir veikindi náði Ragnar Már að bæta sig nánast með hverjum deginum og verður að segja að hann hafi sýnt mikinn karakter að klára mótið!

Í dag lék Ragnar Már lokahringinn á 4 yfir pari, 75 höggum, fékk 3 fugla (í röð á 16.-18. braut) 8 pör og 7 skolla.  Samtals lék Ragnar Már á 25 yfir pari, 309 höggum (82 78 74 75) og lauk keppni í 51. sæti.

Öruggur sigurvegari Orange Bowl í piltaflokki varð Englendingurinn Patrick Kelly með gríðarlegum yfirburðum átti 13 högg á næsta keppanda, Jamie Lopez-Rivarola frá Argentínu. Kelly spilaði á samtals 19 undir pari en Lopez-Rivarola var á samtals 6 undir pari. Í stúlknaflokki sigraði Maria Torres frá Puerto Rico á samtals 4 yfir pari, en keppnin meðal stúlknanna var mun jafnari, aðeins munaði 1 höggi á henni og þeirri sem varð í 2. sæti Nicole Morales frá New York.

Til þess að sjá úrslitin á Orange Bowl SMELLIÐ HÉR: