Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 5. 2013 | 19:00

GA: Barátta við klakann á Jaðarsvelli

Veturinn hefur verið býsna áhugaverður það sem af er, þar sem snjókoma og hláka hafa skipst á. Fyrir jólin var svo komið að mikill klaki hafði safnast saman á vellinum og þar með talið flötunum. Vallarstjóri taldi eftir skoðun á flötum að mjög stutt væri í að skemmdir mundu myndast undir klakanum. Hann hefur þess vegna unnið að því að undanförnu að ryðja flatirnar, gata klakann og sandbera til að hraða bráðnun og minnka líkur á skemmdum.

Um mikla vinnu er að ræða, eins og sést á meðfylgjandi mynd þar sem vélar eru við vinnu á og við 18 flöt. Miðað við veðurspánna er vonast til að klakinn bráðni að miklu eða öllu leyti af flötunum í þeim hita sem nú er í kortunum og hættan verði því liðn hjá, í bili a.m.k. Það er hins vegar ljóst að áfram verður leitað leiða til að fyrirbyggja skemmdir vegna klaka, m.a. með því að skoða hvers konar yfirbreiðslur geta hentað á flatirnar á hausti til að tryggja loftflæði við yfirborð flatanna.

Áfram verður unnið að því hörðum höndum að tryggja að völlurinn komi sem best undan vetri þannig að næstkomandi sumar verði kylfingum ánægjulegt og árangursríkt.

Heimild: gagolf.is