Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 25. 2013 | 12:00

Minning um kylfing – Þorberg Ólafsson

Akureyringurinn og heiðurskylfingurinn Þorbergur Ólafsson lést 17. nóvember á síðasta ári. Hann hefði orðið 62 ára í dag, en Biggi eins og hann var alltaf kallaður af fjölskyldu og vinum var fæddur 25. janúar 1951.

Biggi

Biggi

Biggi var eins og svo margir af Hallgilsstaðafólkinu mikill hagyrðingur og eru fáir sem sóttu um inngöngu í golfklúbb með eins miklum glæsibrag og Biggi gerði fyrir 26 árum þegar hann sótti um inngöngu í Nesklúbbinn á Seltjarnarnesi 1987.  Hér fer inntökubeiðni Bigga:

Áhuga ég hef á því

og harla gaman þætti

Nesklúbbinn að ganga í

gjarnan ef ég mætti.

 

Nákvæmur og natinn er

nærgætinn og glaður

Í stuttu máli stæltur ver

stór og verkhraður.

 

Skipulagið sjálfstætt er

í stórum heila mínum

það sem stundum fram þar fer

er framar vonum mínum.

 

Ykkur eflaust frjálsleg finnst

frægð með eldguðsmessu

ég hef ýmsum á ævi kynnst

því ættuð að huga að þessu.

 

Á Akureyri áður var

og árgjöld engin skulda þar

þetta er mín þráða von

Þorbergur heiti ég Ólafsson.

 

Furðuleg nú ykkur finnst

framagosa gletta

ykkur bið yst sem innst

að fyrirgefa þetta.