Tiger er ein af fáum „celebrities“ sem spilað hafa golf við forsetann
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 18. 2013 | 12:45

Obama tók einn hring með Tiger

Nú um helgina var Barack Obama, Bandaríkjaforseti, í Flórída í einkatíma hjá einum besta golfkennara heims, Butch Harmon. Hann var konulaus, því Michelle og dæturnar kusu fremur að fara á skíði í Colorado (spurning hvort þær hafi varið tíma með Lindsey Vonn, meintri kærestu Tiger?)

Fyrst Obama var í 3 daga heimsókn í Flórída nýtti hann tækifærið og tók einn hring með 2. besta kylfingi heims og einni mestu golfgoðsögn allra tíma Tiger Woods. Já, það getur svo sannarlega verið öfundsvert að vera Bandaríkjaforseti!

Talið er að Obama sé með 18 í forgjöf og Tiger einhvers staðar langt fyrir neðan scratch.  Ekki fylgdi sögunni hvað Obama hefði fengið mörg högg hjá Tiger í forgjöf, reyndar fylgdi ekki heldur sögunni um hvað þeir hefðu spjallað meðan á „þessum sögulega hring“ stóð, en þetta er í fyrsta sinn sem þeir spila golf saman, þó Tiger hafi verið við innsetningarathöfn Obama og Obama staðið sem bjarg við hlið Tiger þegar skandalar einkalífs þess síðarnefnda plöguðu hann sem mest.

Eitt er vitað um hringinn: Það fór ákaflega vel á með þeim og báðir skemmtu sér konunglega!