Ragnheiður Jónsdóttir | október. 24. 2013 | 15:45

Golfvellir í Frakklandi: Golf-de-Saint-Nom-La-Bretéche (1/10)

Hér á næstu dögum verða kynntir 10 golfvellir nálægt París, í Frakklandi.

Saint Nom la Breteche

Byrjað verður á golfstað sem þekktur er um alla Evrópu, einkum í kvennagolfinu því þar fer fram hið árlega Trophée Lancôme, sem er eitt virtasta kvennamót Evrópu (fór fram óslitið þar á árunum 1970-2003) og á sér e.t.v. einhverja samsvörun í Lancôme mótinu sem haldið er að Hellu á hverju vori og markar upphafið hjá mörgum kvenkylfingnum hér á landi.  A.m.k. hefir  Lancôme um langt árabil verið sterkur styrktaraðili golfs.

Saint-Nom-La-Bretéche vellirnir eru tveir: Rouge og Bleu, báðir par-72, 18 holu þ.e. Rauði og Blái völlurinn og báðir hannaðir af Fred Hawtree.  Sá rauði er lengri eða 6252 m af öftustu teigum og sá blái er 6167m.

1-ST-Nom--2c

Vellirnir í núverandi ástandi, sem báðir eru gullfallegir skógarvellir, opnuðu árið 1959, en saga golfstaðarins er mun eldri.  Landslagið bylgjast áfram fremur en að vera slétt eða yfir um hæðótt. Mikið er um vötn (einkum við flatir) og bönkera. Stundum eru flatir „faldar“ innan í trjágróðri sem umlykur flatirnar. Klúbbhúsið er fornt munkaklaustur.

Saint-Nom-La-Bretèche er í vesturhluta Parísar, 25 km frá miðbænum. Best er að keyra eftir A13 og beygja út við „exit 6″ og halda áfram í átt til Versala og Le Chesnay.  Bíltúrinn er vel ferðarinnar virði, keyrt er í gegnum lítil þorp og gullfallega sveit. Eftir að hafa keyrt í 0,5 km beygið þá vestur og keyrið eftir D-307 í átt að Noisy-Le-Roi. Eftir keyrslu í um 7 km á D-307 þá ættu golfvellir Saint-Nom-La-Bretéche  að vera á vinstri hönd.

Auk ofangreinds Trophee Lancôme hafa á St-N0m-La-Bretèche farið fram mörg önnur stórmót s.s. Canada Cup (sem nú er þekktur sem Heimsbikarinn); sem Jack Nicklaus og Arnold Palmer unnu á vellinum fyrir 50 árum, þ.e. 1963.

Upplýsingar:

Heimasíða: SMELLIÐ HÉR: 

Heimilisfang: Golf-de-Saint-Nom-La-Bretéche, Hameau de la Tuilerie Bignon, Saint-Nom-La-Bretéche, Ile-de-France, F-78860

Sími: 33 (0) 1 30 80 04 40 (skrifstofa); 33 (0) 1 30 80 4 27 (Pro Shop); 33 (0) 1 34 62 60 44 (fax).