Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 17. 2014 | 12:45

Eisenhower tréð á Augusta National fellt

Í áratugi hefir Eisenhower tréð, betur þekkt sem tré Ikes verið eitt af kennileitum við 17. braut (Nandínu) á Augusta National, á Masters risamótinu á vori hverju.

Nú fyrr í mánuðnum gekk gríðarlegur snjóstormur yfir Georgíu-ríki í Bandaríkjunum og eyðilagði þetta fallega furutré, en Eisenhower tréð var ekki eikartré s.s. margir ruglast á heldur fura (lat.: Pinus taeda, á ensku þekkt sem loblolly pine).

Í viðtali við The Augusta Chronicle sagði framkvæmdastjóri Augusta National og Masters, Billy Payne:

Það er erfitt að sætta sig við missi Eisenhower trésins. Við fengum skoðanir bestu trjásérfræðinga og því miður var niðurstaða þeirra að ekki væri hægt að laga skemmdirnar.  Við höfum þegar farið að velta fyrir okkur framtíð 17. holunnar og hvernig eigi að minnast þessa kennileitis í sögu Augusta – og við munum svo sannarlega gera hvoru tveggja skil svo sómi sé af.“

Minningu Eisenhower trésins mun því verða haldið á lofti!

Tréð hlaut frægð sína á því að Eisenhower forseti týndi oft boltum sínum í því þegar hann spilaði golf á Augusta National. Upphafshöggið hans lenti oft í trénu, sem síðan var kennt við hann og var hann svo pirraður á því að hann lagði til á stjórnarfundi Augusta National 1956 að tréð yrði fellt. Ekki var orðið við beiðni hans um að fella tréð sem þá var um hálfrar aldar gamalt.

Flestum PGA Tour leikmönnum sem og golfáhangendum sem fylgjast vel með öllu í golfi þótti vænt um tréð.  Bara myndir af Ike trénu gaf golfáhangendum fyrirheit um það sem í vændum var: 4 daga sjónvarpssælu við að horfa á Masters risamótið!