Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 2. 2014 | 10:00

Af hákörlum og öðru hættulegu við golfholur

Sumar holur í golfi eru hættulegri en aðrar.  Sú sem fengið hefir einhverja mestu umfjöllunina í því efni er sú 15. í  Carbrook golfklúbbnum í  Queensland, Ástralíu. Fimmtánda brautin liggur öll meðfram vatnshindrun og í henni eru hákarlar.  Hákarlarnir komust í vatnið þegar flóð var á þessum slóðum fyrir nokkrum árum, en þá er talið að þeim hafi „skolað á land“ og þeir orðið eftir þegar flóðinu linnti.  Þeir eru raunverulegir u.þ.b. 2,5-3 metra langir,  svangir og eru núorðið á lógói klúbbsins og í raun flaggskip hans.  Það er reyndar ansi taugatrekkjandi að spila 15. brautina, en engar fréttir hafa borist frá vellinum af kylfingum sem dottið hafi í vatnið og orðið fyrir hákarlabiti!

Önnur hættuleg hola er sú 13. á Lost City golvellinum í Sun City, Suður-Afríku.  Í vatninu meðferam 13. brautinni eru næstum 40 krókódílar.  Hér verður að vera á varðbergi því útsýnið frá brautinni er dásamlegt en Níl-krókódílarnir nærri.  Eins og í Ástralíu hafa samt engin slys orðið á þessum velli.

Best að fylgjast vel með á 13. holu Lost City golfvallarins í Suður-Afríku

Best að fylgjast vel með á 13. holu Lost City golfvallarins í Suður-Afríku

Enn einn stórhættulegur golfvöllur er Skukuza golfvöllurinn í Kruger þjóðgarðinum, í Suður-Afríku en þar er skilti sem á stendur  „Beware: Dangerous Animals. Enter at Your Own Risk.” (Lausleg þýðing: Varúð! Hættuleg dýr.  Vera á vellinum á eigin áhættu!)  Ef þið eruð á annað borð í Skukuza eruð þið búin að skrifa undir skjal að þið séuð þar á eigin áhættu og megið búast við henni. Hér eru það einkum svangir flóðhestar sem eru hættulegastir og hverju holli fylgir vopnaður vörður, en flóðhestar eru meðal hættulegustu dýra í Afríku. En það eru ýmis önnur svöng dýr sem fylgjast með hverri hreyfingu kylfinga m.a. vörtusvín, ljón og gíraffar, sem sést hafa á vellinum auk fjölmargra annarra dýra.

Gíraffar á flöt á Skukuza golfvellinum í Kruger þjóðgarðinum í Suður-Afríku

Gíraffar á flöt á Skukuza golfvellinum í Kruger þjóðgarðinum í Suður-Afríku