The Rabbits by the 10th green on the Golf Course of Kirkjuból in Sandgerði, Iceland. Photo: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 29. 2014 | 11:45

Sandgerði eða Þorlákshöfn? Fullt í vormót I hjá GKJ

Nú er veðrið hagstætt kylfingum á þessu umhleypingasama vori og hægt að spila golf.

Tveir klúbbar, báðir í um 1 klst fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu hafa auglýst að hægt sé að spila inn á sumargrín nú um helgina; það er hægt á Kirkjubólsvelli í Sandgerði og á Þorlákshafnarvelli í Þorlákshöfn.

Í fréttatilkynningu frá GSG frá því í morgun sagði þannig: „Í morgun kl 07:00 var mjög gott veður á Kirkjubólsvelli. Vindur NA 4 metrar hiti 4° og úrkomulaust. Enginn snjór er á Kirkjubólsvelli í Sandgerði og opið er inn á sumargrín.  Vinsamlegast skráið ykkur á golf.is, en vallargjaldið er einungis kr. 2.000 og kr. 3.000 fyrir hjón.“

Í fréttatilkynningu frá GÞ segir: „ Á laugardag og sunnudag verður opið fyrir alla á golfvöllinn í Þorlákshöfn. Völlurinn er í góðu ásigkomulagi, frost farið úr jörðu og útlitið þokkalegt. Við ætlum að hafa opið inn á sumargrín og biðjum þá sem koma og spila að ganga vel um völlinn og taka tillit til aðstæðna. Ef einhverjar þær aðstæður koma upp sem kalla á breytingu á opnun, þá verður það metið og tilkynnt.

Með áframhald á opnun vallarins verður tekin ákvörðun frá degi til dags og bendum við fólki á að fylgjast með upplýsingum sem komið verður á framfæri vegna þess.
Golfskálinn verður opinn og verður gjald inn á völlinn 2.000 kr. fyrir alla einstaklinga þessa helgi.
Aðeins er opið fyrir rástímaskráningu einn dag fram í tímann.“

Þannig ….. Hvað má bjóða kylfingum – Golfhring í Sandgerði eða Þorlákshöfn?

Vert er að geta þess að golfmót – Vormót 1 fer einnig fram hjá GKJ – Golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ og er orðið fullt í það fyrir löngu og biðlistar mynduðust. Um 143 kylfingar munda kylfurnar á Hlíðarvelli í dag á þessu fyrsta Vormóti GKJ.  Golf 1 verður með fréttaflutning af því móti síðar.