Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 7. 2014 | 18:15

Paulina og 9 gæjar

Allt er nú til!

Hér er e.t.v. komið að mörkum hversu golfleg frétt þetta er – en e.t.v. að einhverjir hafi gaman af henni.

Þannig er mál með vexti að Paulina Gretzky , kærasta nr. 11 á heimslistanum, birtist á forsíðu Golf Digest og er fremur golflega að sjá.  Myndin hefir verið umdeild meðal kvenkylfinga á bestu mótaröð kvennagolfsins, LPGA,  vegna þess að hún þykir gefa ranga mynd af kvenatvinnukylfingum í golfi. Beinist gagnrýnin m.a. að því að Gretzky, sem er ekkert sérstakur kylfingur, sé aðeins þar vegna þess að hún er kæarsta DJ og lítur þrumuvel út.  Bent er á að Gretzky sé aðeins 11. kvenmaðurinn á forsíðu blaðsins og t.a.m. nr. 1 á Rolex- heimslistanum, Inbee Park  hafi aldrei verið á forsíðu blaðsins.  Gagnrýnin beinist að ofurdýrkun á góðu útliti fremur en hæfileikum, þegar kemur að kvenkylfingum meðan hvaða karlkylfingslufsi sem er  geti komist á forsíðu tímarita eins og Golf Digest.

Þessa mynd sá ljósmyndari nokkur í Orlando, Flórída, sem kallar sig Cy Cyr og fékk hann 9 vini sína til að stæla Gretzky og útkoman er heldur fyndin eins og sjá má.

Ekki fylgir sögunni í hvaða tilgangi myndirnar voru gerðar öðrum en grín, grínsins vegna! Hins vegar er mjög auðvelt að lesa í myndina allskyns ádeilu t.a.m. á ofnotkun kvenlíkamans í auglýsingar og jafnvel misnotkun.

Okkur hér á Golf1 finnst hins vegar ekki verra að sjá af og til nokkra hressa karla á forsíðum stórgolftímarita… í raun miklu meira gaman að horfa á þá 🙂