Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 15. 2014 | 12:00

The Masters 2014: Vonbrigðaúrslit í ár?

The Masters risamótið í ár, sem var það 78. hófst sem það „langopnasta“ í manna minnum þ.e. miklu stærri hópur kylfinga átti tækifæri á sigri en oft áður vegna þess m.a að Tiger dró sig úr mótinu og Phil Mickelson komst ekki í gegnum niðurskurð.

Spáin um úrslitin var hins vegar ekki svo óskaplega erfið s.s. sjá má á grein Golf 1 þar sem taldir voru þeir 10 sem þóttu sigurstranglegastir – en þar eru m.a. þeir sem urðu í 1 og 2 sæti taldir SMELLIÐ HÉR: 

Þetta Masters mót var ekki eins rafmagnað (vegna fjarveru Tiger), vegna þess m.a. að Phil og Luke Donald komust ekki í gegnum niðurskurð og vegna þess að Rory brást snúðaspádómsmanninum herfilega SMELLIÐ HÉR: 

Fyrir lokadag Masters voru menn, sem áður höfðu horft á þetta risamót tortryggnisaugum þó aðeins farnir að hjarna við og hrífast með, því svo virtist sem tækifæri væri á „sögulegum endi“ þar sem 20 ára strákur, Jordan Spieth, átti tækifæri á að slá við meti Tiger, sem yngsti sigurvegari Masters risamótsins frá upphafi.

Jafnframt bauð Mastersmót þessa árs upp á ýmsa aðra spennandi lokafyrirsagnir: Myndi Jonas Blixt, sem varð í 2. sæti takast að sigra og verða fyrsti sænski karlkylfingurinn til þess að vinna risamót?  Spennandi var líka hvort sá sem átti titil að verja, Adam Scott, myndi takast að verja titil sinn og verða sá fjórði til þess í allri sögu The Masters (þeim sem tekist hefir að vinna ár eftir ár á The Masters eru: Jack Nicklaus 1965, 1966; Nick Faldo, 1980 og 1981 og síðan Tiger Woods 2001 og 2002).

Jafnframt átti „vélvirkinn“ tækifæri til þess að slá aldursmet Jack Nicklaus, sem er sá elsti sem hingað til hefir sigrað á Masters móti, þ.e. 46 ára, meðan ef Jimenez hefði tekist að sigra hefði hann bætt metið um 4 ár, en hann varð 50 ára í janúar.

Í lokinn voru engir sem veittu Bubba og Jordan Spieth nokkra keppni.  Flatt. Eini spenningurinn kannski fyrstu 7 holurnar þegar Spieth spilaði frábært golf, en síðan var Bubba kominn framúr eftir fyrri 9 og hélt forystunni.  Engin flugeldasýning á seinni 9, með fuglum og örnum; aðeins reynt að ná pörum og halda sínu (sem auðvitað er skynsamlegt en ekkert gaman að horfa á). Spieth veitti Bubba enga samkeppni frá 12. holu eins og Spieth hefir sagt sjálfur.

Eini smá spenningurinn kom e.t.v. á 15. braut (par-5u) þar sem Bubba sló til vinstri og nokkur furutré blokkeruðu innáhögg hans. Í staðinn fyrir að leggja upp örugglega fyrir framan tjörnina sem ver flötina „punch-aði“ hann með 6-unni í gegnum fururnar og yfir vatnið og boltinn endaði aftarlega á flötinni, sem er allt að því kraftaverk.

„Þetta er bara Bubba golf“ sagði kylfuveinn Bubba, Teddy Scott. „Þetta er „freak show“. Ég get ekki lýst þessu öðruvísi. Á hverjum degi sem ég spila golf með honum eða horfi á hann spila spyr ég „hvernig nærðu þessu?“

„Ég spurði hann á 18. teig eftir teighöggið „Ertu frá Mars eða hvað? Vegna þess að ég trúi bara ekki þessum höggum sem þú ert að slá.““

Og það er gaman að fylgjast með Bubba. Hann var langhögglengstur allra kylfinga á þessu Masters móti enda ein aðalsleggja PGA Tour.

En fagnaðarlætin á seinni 9 á Masters í ár voru í lágmarki og úrslitin e.t.v. vonbrigði fyrir einhverja, þó Bubba hafi svo sannarlega verið vel að sigri kominn!