Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 3. 2012 | 09:00

Af hverju Callaway hefir engar áhyggjur af því að Mickelson noti TaylorMade tré í Asíu

Phil Mickelson er á samningi hjá Callaway, sem sér kappanum fyrir öllum golfútbúnaði, en golfútbúnaðarfréttir eru nú vinsælar eftir meintan ábatasaman samning Rory við Nike (sem hvorki hefir fengist staðfestur af Rory né Nike).

En nú sást til Phil nota TaylorMade RocketBallz 3-tré á HSBC-mótinu í Mission Hills,  Kína!!!  Venjulega myndi slík sýn leiða til sögusagna um að yfirvofandi væri riftun auglýsingasamnings Phil við Callaway, en skv. Harry Arnett, varaforseta markaðsmála hjá Callaway var ástæða fyrir því að TaylorMade kylfan var í poka Phil.

Bones og Phil með nýju svörtu kylfuna

„Fyrir nokkrum vikum var Phil að leita að 3-tré sem væri einhvers staðar á milli venjulega 3-trés hans og drævers í lengd, þar sem það var það sem hann þarfnaðist á velli sem Mission Hills,“ sagði Arnett. „Við vorum með ekkert tilbúið handa honum og þegar hann spurði hvað við myndum stinga upp á fyrir hann, sögðum við honum að nota það sem hann langaði til. Phil er í raun með einn sveigjanlegasta golfútbúnaðarsamning allra kylfinga á Túrnum, þannig að þetta er ekki mikið mál.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Mickelson hefir notað útbúnað sem ekki er frá Callaway þ.á.m. brautartré (hann bæti nú nýlega gömlu Titleist 980F 5-tré í poka sinn) og svo muna allir þegar hann notaði Ping Eye2 fleygjárn þegar gróparumræðan stóð hvað hæst 2010.

En hver sem ástæða Mickelson fyrir notkun TaylorMade kylfunnar er, þá hefir Arnett engar áhyggjur. „Við verðum til með eitthvað handa honum mjög fljótt,“ sagði hann. „Og við erum viss um að honum muni finnast okkar kylfur betri.“

Heimild: Golf Digest