Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 9. 2020 | 16:00

Afmæliskylfingur dagsins: Helen Alfredson –– 9. apríl 2020

Afmæliskylfingur dagsins er hin sænska Helen Christine Alfredson. Helen er fædd í Gautaborg, Svíþjóð 9. apríl 1965 og því 55 ára. Helen er oft kölluð Alfie.

Helen byrjaði að spila golf 11 ára og átti farsælan áhugamannsferil; var m.a. í landsliðum Svía í unglinga- og kvennamótum. Sem barn spilaði hún bæði handbolta og var í skautaíþróttum. Pabbi hennar, Björn, var 6-faldur sænskur meistari í handbolta.

Hún gerðist atvinnumaður í golfi árið 1989. Hún hefir sigrað í 25 atvinnumannsmótum; þ.á.m. 7 sinnum á LPGA; 11 sinnum á LET; 3 sinnum á japanska LPGA; 1 sinni á ALPG og 4 öðrum.  Helen sigraði í einu risamóti þ.e. ANA Inspiration árið 1993.

Árið 2005 giftist Helen, Kent Nilsson og héldu þau heimili bæði í Onsala, Kungsbacka í Svíþjóð og í Orlandó, Flórída, en hjónakornin skildu 2016.

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru: Seve Ballesteros, 9. apríl 1957 (hefði orðið 63 ára í dag); Þórunn Einarsdóttir, 9. apríl 1959 (61 árs); Valgerður Pálsdóttir, 9. apríl 1961 (59 ára); Ingibjörg Birgisdóttir, 9. apríl 1966 (56 ára); Hörður Hinrik Arnarson, GK, 9. apríl 1967 (53 ára); Ólöf María Einarsdóttir, 9. apríl 1999 (21 árs) … og ….

Golf 1 óskar afmæliskylfingunum og öðrum kylfingum sem afmæli eiga í dag innilega til hamingju með afmælið!

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is