Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 28. 2012 | 12:00

ALPG: Lydia Ko er við það að skrifa sig inn í golfsöguna eftir sterkan 2. hring á Bing Lee

Á sama tíma á síðasta ári komst hin 14 ára Lydia Ko nálægt því að skrifa sig í golfsögubækur kvennagolfsins. Nú fyrr í dag  (hjá andfætlum okkar í Ástralíu, sem eru 11 klst. á undan okkar tíma) gæti vel verið að Lydia Ko hafi lagt grunninn að því að skrifa nafn sitt í sögubækurnar, því allt lítur vel út hjá hinni 14 ára gömlu stelpu að sigra í Bing Lee Samsung Women’s NSW Open í Oatlands Golf Club í Sydney, á morgun.

Lydia sem er nr. 1 á heimslista áhugakvenkylfinga stendur frammi fyrir því að verða yngsti kvenkylfingur til þess að sigra á móti á einhverju hinna 5 viðurkenndu kvenmótaraða heims. (Hér á Golf 1 fylgjumst við sem stendur með 3 þessara mótaraða: ALPG, LET og LPGA).

Lydia Ko

Þetta undrabarn golfsins (Lydia Ko) var á meiriháttar -8 undir pari skori fyrr í dag, glæsilegum 64 höggum á Bing Lee mótinu og er nú á samtals skori upp á -11 undir pari. Hún er því með 4 högga forystu á Lindsey Wright frá Victoríu, í Ástralíu, sem sömuleiðis átti frábæran hring upp á -6 undir pari, þ.e. 66 högg.

Það voru næstum engin mistök á hring Lydiu Ko á skýjuðum en þurrum degi. Hún byrjaði á að fá fugl, síðan par, og síðan fugl á par-4 3. holunni og síðan örn á par-5, 4. holunni. Ko sló 2. höggið á 4. holunni á flatarkantinn og chippaði þaðan með 9-járni beint ofan í holuna.  Um örninn sinn sagði Lydia: „Ég tek venjulega ekki 9-járn við flatarkannta en mér fannst ég gæti bara gert það þar sem ég hafði fengið tvo fugla á fyrstu 3 holunum.“

Lydia Ko

Síðan fékk Lydia par á 5. braut og síðan 3 fugla í röð og lauk fyrri 9 á glæsiskori -7 undir pari, 29 höggum. Þetta er lægsta skor hennar á 9 holum í móti.

Nokkru erfiðlegar gekk á seinni 9; hún byrjaði með að fá 3 pör á 3 af erfiðari brautum vallarins og barðist á 13. við að halda glæsiskori sínu sem tókst. Síðan seig á ógæfuhliðina þegar hún þrípúttaði af 20 feta færi á 14. braut og fyrsti og eini skolli hrings hennar leit dagsins ljós. Hún lét samt ekki þessa óheppni slá sig út af laginu heldur fékk fugla á 15. og 16. braut.

Lydia Ko

Hringur hennar upp á 64 högg er ekki opinbert vallarmet m.a. vegna „preferred lies“ reglunnar sem var í gildi vegna fremur vætusamra keppnisskilyrða.

Um hring sinn sagði Lydia Ko:„Ég spilaði stöðugt eins og í gær, ekki mörg mistök. Ég held að ég hafi verið 99,9% í dag Ég er virkilega ánægð.“

Lindsay Wright leiðir þær sem munu reyna að hafa betur en hin 14 ára á morgun eftir skollafrítt spil upp á -6 undir pari, 66 högg, sem er besti hringur hennar í 15 mánuði.

Ástralski kylfingurinn Lindsay Wright

Hin 32 ára Lindsay sagði eftir hringinn:„Þetta er besti slátturinn minn í 2 ár, ég slæ bara á pinna í staðinn fyrir að vera að ströggla með allt.“

Ástralski kylfingurinn Kristie Smith

Hin franska Gwladys Nocera, (sem spilar á Evrópumótaröð kvenna) er í 3. sæti á samtals -6 undir pari og hin vestur-ástralska  Kristie Smith (67) er höggi á eftir.

Sex keppendur deila 5.sætinu á samtals -4 undir pari þ.á.m. forystukonan frá því í gær Rachel Bailey (72) hin enska Melissa Reid (70) og Nikki Garrett (71) sem kynnt var til sögunnar í gær hér á Golf 1.

Ástralski kylfingurinn Katerine Hull

Aðrar sem vert er að minnast á eru Katherine Hull frá Queensland (69), sem er T-17, samtals -2 undir pari; bandaríska stúlkan Jessica Korda (70), sem er T-28 og samtals á pari;  Laura Davies (72) sem er T-31 á samtals +1 yfir pari. Hin forystukona gærdagsins, Karen Lunn,  var (líkt og Phil Mickelson á 1. hring Farmers Insurance) á vonbrigðaskori upp á 77 (þetta kemur fyrir þá bestu!) og deilir 31. sætinu með Lauru.

Lydía Ko er auðvitað sá áhugamaður sem stendur sig best. Besti áhugamaðurinn í keppninni hlýtur tékka upp á $1,000 (u.þ.b. 120.000 íslenskar krónur) að frumkvæði HSBC bankans til þess að mæta útgjöldum viðkomandi kylfings (en áhugamenn mega í raun ekki taka við verðlaunafé).

Til þess að sjá stöðuna eftir 2. dag á Bing Lee, smellið HÉR: 

Heimild: ALPG