Ragnheiður Jónsdóttir | september. 5. 2019 | 19:00

Áskorendamótaröð Evrópu: Birgir Leifur og Guðmundur Ágúst meðal efstu manna!

Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR), Íslandsmeistari í golfi 2019, og Birgir Leifur Hafþórsson (GKG), sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi, eru báðir á meðal keppenda á Áskorendamótaröðinni í þessari viku.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR. Mynd: seth@golf.is

Mótaröðin er sú næst sterkasta hjá atvinnukylfingum í Evrópu.

Þeir léku báðir á -3 á fyrsta keppnisdeginum og eru á meðal 5 efstu. Guðmundur Ágúst fékk alls 6 fugla á hringnum og 3 skolla. Á meðan Birgir Leifur fékk fimm fugla og 2 skolla.

Keppt er í Frakklandi á móti sem heitir Open de Bretagne og fer fram á Golf Bluegreen de Pléneuf Val André.

Sjá má stöðuna í Open de Bretagne  mótinu með því að SMELLA HÉR:

Guðmundur Ágúst öðlaðist keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni með því að sigra á þremur mótum á Nordic Tour atvinnumótaröðinni á þessu tímabili. Mótið í Frakklandi er það fjórða á tímabilinu hjá Guðmundi. Hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur þeirra og besti árangur hans er 51. sæti.

Þetta er þriðja mótið á tímabilinu hjá Birgi á þessu tímabili. Hann hefur ekki komist í gegnum niðurskurðinn á fyrstu tveimur mótunum. Birgir Leifur hefur frá árinu 1999 leikið á þessari mótaröð.

Hann sigraði á einu móti árið 2017 og er hann eini íslenski kylfingurinn sem hefur sigrað á atvinnumótaröð í styrkleikaflokki nr. 2.