Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 10. 2020 | 18:00

Áskorendamótaröð Evrópu: Guðmundur og Haraldur báðir meðal keppenda á næsta móti

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingar úr GR, eru báðir á keppendalistanum fyrir næsta mót á Áskorendamótaröðinni, sem hefst n.k. fimmtudag, 12. nóvember 2020.

Mótið fer fram á Novo Sancti Petri í Cadiz héraði á Spáni og er það jafnframt næst síðasta mótið á keppnistímabilinu á ChallengeTour (Áskorendamótaröð Evrópu).

Haraldur Franklín Magnús, GR, var fyrsti maður á biðlista fyrir þetta mót og í gær var ljóst að hann yrði á meðal keppenda.

Hér má sjá keppendalistann sem er uppfærður daglega.

Áskorendamótaröðin er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu í karlaflokki á eftir sjálfri Evrópumótaröðinni.

Leikið var á sama velli á síðasta móti sem lauk í fyrradag. Þar skrifaði Ondrej Lieser nýjan kafla í golfsögu Tékklands. Hann stóð uppi sem sigurvegari og er hann fyrsti kylfingurinn frá Tékklandi sem landar sigri á Áskorendamótaröðinni.