Berglind Björnsdóttir, GR, að keppa fyrir UNCG í Bandaríkjunum. Mynd: Spartans
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 11. 2012 | 05:30

Bandaríska háskólagolfið: Berglind á 72 – Ólafía Þórunn á 74 á 2. hring Cougar Classic

Í gær var spilaður 2. hringur á Cougar Classic háskólamótinu í Suður-Karólíu í Bandaríkjunum. Í mótinu taka þátt þær Berglind Björnsdóttir, GR og háskólalið hennar UNCG og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og lið hennar í Wake Forest.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Wake Forest. Mynd: Kristinn J Gíslason.

Í gær spilaði Berglind á 72 höggum, skipti þessu jafnt fékk tvo fugla og tvo skolla bæði á fyrri og seinni 9 og var á sléttu pari. Samtals er Berglind búin að spila á samtals 2 yfir pari, á 146 höggum (74 72) og deilir 35. sætinu með 6 öðrum. Berglind er á næstbesta heildarskori af liði sínu.

Ólafía Þórunn átti óvenjuslakan fyrsta hring upp á 80 högg en í gær bætti hún leik sinn um 6 högg, var á 74 höggum og er því samtals á 10 yfir pari, 154 höggum (80 74) og hækkaði sig úr 118. sætinu sem hún var í, í 93. sæti, sem hún deilir með 7 öðrum. Ólafía Þórunn var á næstbesta skori í liði sínu 2. hringinn.

Lið Wake Forest er í 18. sæti og lið UNCG er T-19.

Lið Ingunnar Gunnarsdóttur, GKG, þ.e. lið Furman háskólans tekur þátt í mótinu án Ingunnar og er sem fyrr í næstneðsta sæti, 23. sætinu.

Golf 1 óskar þeim Berglindi og Ólafíu Þórunni góðs gengis!!!

Til þess að sjá stöðuna eftir 2. dag Cougar Classic SMELLIÐ HÉR: