Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 29. 2012 | 17:30

Eimskipsmótaröðin (6): Barist um stigameistaratitlana í Símamótinu n.k. helgi

Lokastigamótið á Eimskipsmótaröðinni, Símamótið, fer fram á Grafarholtsvelli um næstu helgi. Leiknar verða 54 holur í mótinu, þar af 36 holur á laugardeginum. Góð þátttaka er í mótinu. Hámarksfjöldi keppenda er 84 kylfingar og hefur myndast biðlisti inn í mótið hjá körlunum.

Barist er um stigameistaratitilinn hjá bæði körlum og konum. Íslandsmeistarinn tvöfaldi, Haraldur Franklín Magnús úr GR, er í efsta sæti á stigalista karla með 5266,43 stig. Hann verður hins vegar ekki með í mótinu um helgina en hann hélt nýverið til náms í Bandaríkjunum. Hlynur Geir Hjartarson úr GOS er með pálmann í höndunum í karlaflokki með 5157,50 stig. Andri Þór Björnsson úr GR er þriðji en hann verður einnig ekki með um helgina. Þórður Rafn Gissurarson úr GR kemur í 4. sæti og hann ásamt Rúnari Arnórssyni úr GK eru þeir einu sem geta náð Hlyni að stigum.

Í kvennaflokki verður baráttan um stigameistaratitilinn á milli Signýjar Arnórsdóttur og Guðrúnar Brá Björgvinsdóttur, báðar úr Keili. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er í efsta sæti með 6002,50 stig en hún verður ekki með í lokamótinu þar sem hún hefur haldið til Bandaríkjanna í nám. Signý er önnur með 5892,50 stig en Guðrún Brá í þriðja sæti með 5241,25 stig. Fari Signý með sigur af hólmi í Grafarholti þar verður hún einnig stigameistari.

Lifandi skor verður frá Símamótinu á Grafarholtsvelli um helgina og skor kylfinga skrásett á þriggja holu fresti.

Stigalisti karla á Eimskipsmótaröðinni:
1. Haraldur Franklín Magnús             GR      5266.43
2. Hlynur Geir Hjartarson               GOS 5157.50
3. Andri Þór Björnsson                  GR      4307.50
4. Þórður Rafn Gissurarson              GR      4282.50
5. Rúnar Arnórsson                      GK      3882.50

Stigalisti kvenna á Eimskipsmótaröðinni:
1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir         GR      6002.50
2. Signý Arnórsdóttir                   GK      5892.50
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir           GK      5241.25
4. Anna Sólveig Snorradóttir            GK      4118.75
5. Tinna Jóhannsdóttir                  GK      3975.00