Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 30. 2012 | 17:15

Evrópumótaröðin: 6 eru í efsta sæti þegar Opna sikleyska er hálfnað – David Lynn, Jamie Donaldson, Peter Lawrie, Pelle Edberg, Maarten Lafeber og Simon Wakefield

Það eru hvorki fleiri né færri en 6 sem deila efsta sætinu á Opna sikileyska þegar mótið er hálfnað á Verdura Golf & Spa Resort á Sikiley. Þessir 6 eru forystumaður gærdagsins, Írinn Peter Lawrie, Svíinn Pelle Edberg, Walesverjinn Jamie Donaldson, Hollendingurinn Maarten Lafeber og Englendingarnir David Lynn og Simon Wakefield. Allir forystumennirnir hafa samtals spilað á -8 undir pari, samtals 136 höggum.  Sá sem var á besta skorinu í dag var Svíinn Pelle Edberg, en hann kom í hús á 66 höggum, fékk 6 fugla, 2 skolla og glæsilegan örn á 11. braut.

Geta mætti þess að Simon Wakefield er sá sem var í efsta sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar 2010, sem fram fór á PGA Catalunya vellinum. Þetta er í fyrsta skipti í lengri tíma sem hann er að blanda sér í toppbaráttuna.

Síðan kemur annar hópur 7 kylfinga sem deilir 7. sætinu aðeins 1 höggi á eftir forystunni: Danirnir Thorbjörn Olesen og Sören Kjeldsen, Englendingurinn Sam Hutsby, Garth Mulroy frá Suður-Afríku, Julien Gurerier frá Frakklandi, Shane Lowrie frá Írlandi og Richard Green frá Ástralíu.

Já, það er mannmargt á toppnum á Sikiley og enginn sérstakur að skara fram úr nema ef vera skyldi Matteo Manassero, sem er ekkert að eiga neitt sérlega gott mót, spilaði báða dagana á 72 höggum eða sléttu pari. Hann lenti í 96. sæti af  144 og náði ekki niðurskurði. Hann er á leiðinni heim til Veróna. Sýnir að menn eru sjaldnast spámenn í eiginn heimalandi!

Til þess að sjá stöðuna þegar Opna sikileyska er hálfnað smellið HÉR: