Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 27. 2012 | 23:00

Evróputúrinn: Enginn náði forystunni af Dananum Thorbjörn Olesen þegar Abu Dhabi HSBC Golf Championship er hálfnað

Daninn, Thorbjørn Olesen, spilaði á glæsilegum 67 höggum í  Abu Dhabi HSBC Golf Championship, á 2. hring (eins og Golf1 greindi frá fyrr í dag) og það var engum, sem tókst að jafna eða fara fram úr honum.  7 fuglar og 2 skollar litu dagsins ljós. Thorbjørn er á samtals -7 undir pari, samtals 137 höggum (70 67) og leiðir þegar mótið er hálfnað.

Það voru margir, sem áttu eftir að ljúka leik kl. 11 í morgun þegar fyrri stöðufréttin var skrifuð á Golf 1. Þ.á.m. þeir tveir sem verma 2. sætið: Norður-Írinn Gareth Maybin og Ítalinn Matteo Manassero. Báðir voru á samtals -6 undir pari, 138 höggum; Maybin (68 70) og Manassero (73 65).

Manassero átti lægsta hringinn á Fálkavellinum  (ens.: National Course) í dag, spilaði glæsilega og skollafrítt og fékk 7 fugla. [Golf 1 var fyrr í haust með kynningu á Matteo Manassero sem sjá má hér: MANASSERO 1   –   MANASSERO 2  –  MANASSERO 3   –   MANASSERO 4  –   MANASSERO 5]

Sjö stórkylfingar deila 4. sætinu þ.á.m. Tiger Woods, Rory McIlroy og Robertarnir 2 Rock og Karlson, allir á samtals -4 undir pari, hver og aðeins 3 högg sem skilja þá og Olesen að.

Margir frábærir kylfingar náðu ekki niðurskurði og ber þar fyrstan að nefna Martin Kaymer, sem átti titil að verja og meira en það, með sigri á mótinu hefði hann náð þrennu, þ.e. sigrað mótið 3 ár í röð og 4 sinnum sama mótið alls – en því var ekki ætlað að vera og kannski að pressan af þessum sögulega möguleika hafi truflað spilið, því Kaymer segist vera búinn að vinna mikið í spili sínu.

Aðrir sem náðu ekki niðurskurði eru: fv. Ryder Cup fyrirliði Evrópu Colin Montgomerie, já fæstir sem minnast á að þessi frábæri kylfingur tók þátt i mótinu, spænski högglangi kylfingurinn Alvaro Quiros, nr. 73 á heimslistanum, ítalski kylfingurinn Edoardo Molinari og Branden Grace (sem sigraði Joburg Open og nú síðasta sunnudag Volvo Golf Champions) sem hefði með sigri í mótinu unnið 3. mótið í röð á árinu og eins Ahmed Al Musharekh sem vermdi síðasta sætið á 162 höggum (82 80). Al Musharekh, 21 árs, er áhugamaður og fremsti kylfingur Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Hann lék í boði styrktaraðila og hefir væntanlega hlotið dýrmæta reynslu að spila í þessu stjörnumprýdda móti – a.m.k. getur hann sagt syni sínum, sem fæddist í vikunni, að hann hafi spilað í sama móti og Tiger! Um frammistöðu sína sagði Al Musharekh, sem var að spila í 2. móti sínu á Evróputúrnum:

„Ég á margt eftir ólært. Ég spila í [Dubai Desert Classic] í næsta mánuði, þannig að þetta er góð reynsla fyrir mig“

Ahmed Al Musharekh í dag

Til þess að sjá stöðuna eftir 2. dag Abu Dhabi HSBC Golf Championship smellið HÉR: