Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 9. 2012 | 09:00

Frægir kylfingar: Eva Longoria

Það er orðið nokkuð langt síðan að Golf1 hafi birt grein í greinaröðinni „Frægir kylfingar“ og skal hér bætt úr.  Nýjasti golfáhugamaðurinn meðal Hollywood stjarnanna er leikkonan Eva Longoria.

Eva er ekki sú hæsta, aðeins 1,55 m há og með þennan líka risa dræver?

Flestir kannast við bandarísku leikkonuna Evu Longoria, sem leikið hefir aðþrengdu eiginkonuna Gabrielle Solis í samnefndum sjónvarpsþáttum.  Eva hefir leikið Gabrielle í 8 ár og er nú að hætta…. en hefir fundið sér nýtt áhugamál þar sem golfið er.

Eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis hjá Evu.... Úff... það getur verið erfitt að byrja í golfi!

En hver er þessi litla leikkona (Eva er aðeins 1,55 m)?  Eva heitir fullu nafni Eva Jacqueline Longoria og fæddist í Corpus Christi í Texas 15. mars 1975 og er því 37 ára.

Fyrir utan „Aðþrengdar eiginkonur“ sem hún er e.t.v. þekktust fyrir hefir hún leikið í kvikmyndum á borð við  Harsh Times (2005), The Sentinel (2006) og Over Her Dead Body (2008).

Kvikmyndir sem koma út í ár og Eva leikur í eru: The Bayton Disco og Long Time Gone.

Eva hefir verið tvígift: Fyrri eiginmaður hennar var sápuóperustjarnan Tyler Christopher sem leikur í General Hospital (þáttum sem hafa verið í gangi heila eilífð í Bandaríkjunum). Honum var Eva gift 2002-2004.  Seinni eiginmaður Evu var öllu þekktari en það er körfuboltakappinn franski Tony Parker, en þau voru gift 2007-2011.  Frá febrúar -mars á þessu ári var Eva að deita Eduardo Cruz, yngri bróður Penelope Cruz, en ekkert virðist hafa orðið úr því sambandi.

Þarna tekur Eva Longoria sig vel út - hún á framtíðina fyrir sér í golfinu!