Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 2. 2012 | 15:00

Frægir kylfingar: Rokkarinn Alice Cooper bendir á svindlara meðal fræga fólksins í golfinu – myndskeið

Rokkarinn Alice Cooper hefir viðurkennt að hann svindli reglulega í golfi og eins hefir hann komið upp um nokkra fræga spilafélaga sína þ.á.m. fyrrum Bandaríkjaforseta Bill Clinton og viðskiptajöfurinn Donald Trump, en hann segir þá báða sveigja reglurnar á golfvellinum.

Alice Cooper á tónleikum í London  –   28. október 2012 – Karlinn bara vel á sig kominn 64 ára, en hann er fæddur 4. febrúar 1948

Cooper sem er einna frægastur fyrir smellinn „School’s Out” er alveg ágætis kylfingur – var m.a. á lista yfir bestu tónlistarmennina í golfinu, sem Golf Digest birti fyrir 6 árum, en þá var hann með 5,3 í forgjöf.

Hann hefir sjálfur sagt að golfið hafi hjálpað sér að yfirvinna áfengissýkina kringum 1980 – hann hafi þurft á annarri jafnsterkri en heilbrigðari fíkn að halda og fundið hana í golfinu.

Hann hefir viðurkennt að hafa komið bolta sínum í betri legu þegar meðspilararnir sjá ekki en fullyrðir að hann sé ekki sá eini.

Cooper sagði í viðtali við Q magazine: „Allir hafa svindlað í golfi. Kannski hafa þeir komið boltanum í betri legu með svolitlum tilfærslum hér og þar. En ég geri það aðeins þegar ég spila með vinum mínum. Í mótum fer ég eftir reglum…“

Aðspurður um hver af fræga fólkinu sé versti svindlarinn svaraði Cooper:„ Ég vildi ég gæti sagt ykkur það. Það yrði sjokkerandi. Ég spilaði eitt sinn með Donald Trump. Það er allt sem ég ætla að segja. (Síðan þessi fyndna setning en hana er ekki hægt að þýða svo hún haldi tvíræðninni: „President Clinton never had a bad lie in his life, lets put it that way!!!“ )  Það skiptir engu hvert boltinn hans fer, boltinn er alltaf á fínum stað vegna þess að það eru CIA gæjar í skóginum (að setja hann í betri stöðu) vissuð þið það?“

Hér í meðfylgjandi myndskeiði má sjá skemmtilegt viðtal við Alice Cooper – SMELLIÐ HÉR: 

Heimild: The Kokopelli Golf Stance