Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 3. 2019 | 18:00

Garrigus telur vímuefnastefnu PGA Tour of stranga

Robert Garrigus snýr aftur á  PGA Tour í þessari viku eftir að hafa verið vikið af mótaröðinni í 3 mánuði fyrir að hafa fallið á vímuefnaprófi.

Garrigus staðfesti að hann hefði greinst jákvæður fyrir notkun á marijuana, en nú þegar hann er aftur á Túrnum, hefir hann tjáð sig um strangleika vímuefnastefnu PGA Tour.

Hann talaði við Todd Lewis á Golf Channel á æfingasvæðinu fyrir 3M Open, sem er mót vikunnar á PGA Tour.

Garrigus sagði að hann hefði þurft að nota marijuana í læknisfræðilegum tilgangi og hefði haft vottorð læknis upp á það, en efnið, sem mælst hefði í sér, hefði farið yfir og verið hærra en leyfileg mörk PGA Tour.

Garrigus lagði áherslu á að marijuana bætti ekki frammistöðuna á vellinum á neinn hátt og að sér og nokkrum öðrum leikmönnum PGA Tour finndist vímuefnastefna mótaraðarinnar „alveg fáránleg.“

„Það var ekki ásetningur minn að gera lítið úr PGA Tour eða atvinnumönnunum á mótaröðinni, en reglur eru reglur og ég fór fram yfir (leyfileg mörk) og var vikið af mótaröðinni,“ sagði Garrigus. „(Marijuana) hjálpar manni ekki að koma boltanum í holuna. Ég skil að ef verið er að svindla, þá ætti viðkomandi að vera vikið (af mótaröðinni) í 100% tilvika. Allt annað ætti að vera hægt að semja um.“

Garrigus sagði jafnframt að ef vímuefnið væri löglegt á einn eða annan hátt í 28 af 50 ríkjum Bandaríkjanna þá ætti að vera samskonar próf fyrir sambærileg vímuefni s.s. áfengi.

Ef verið er að prófa fyrir marijuana þá ætti að vera að prófa fyrir áfengi, líka“ sagði Garrigus. „Ef hægt er að kaupa það (vímuefnið) í verslun, af hverju er þá verið að prófa fyrir því? Það er mín skoðun.“

Garrigus og fjölskylda hans eiga marijuana búgarð í Washington, þar sem marijuana er að fullu lögmætt og hann áformar að tala við framkvæmdastjóra PGA Tour, Jay Monahan, um að marijuana verði tekið af lista bannaðra efna.

En að öðru leyti sagði Garrigus að brottvikning hans hefði kveikt í löngun hans að spila aftur golf á atvinnumannsstigi og hann væri spenntur fyrir að tía upp í þessari viku í Minnesota. Í ráshóp Garrigus eru Lucas Glover og Brandon Harkins.