Flagg golfklúbbsins Glanna – eins sérstakasta vellli sem Áslaug hefir spilað
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 1. 2019 | 21:00

GGB: Golf á Glannavelli og útivist við Hreðavatn og ganga um Jafnaskarðsskóg

Golfklúbburinn Glanni er í Borgarfirði og kannast margir við hann. Nú er í boði heldur betur skemmtilegheit fyrir kylfinga jafnt þá sem ekki spila golf og vilja verja tíma sínum í hinum gullfallega Borgarfirði!

Frá Golfvellinum Glanna. Mynd: GGB

 

Á facebook síðu Glanna má sjá eftirfarandi frétt:

Golfklúbburinn Glanni, sem margir þekkja, en hann er rétt við fossinn Glanna í Norðurá, bíður hópum að heimsækja völlinn og spila golf en þeir sem ekki spila golf eiga kost á áhugaverðri göngu um nágrennið með leiðsögumanni. Við erum að hugsa um starfshópa eða hvaða hópa sem er sem vilja njóta náttúrupplifunar og verja saman degi í fallegu umhverfi. Við bjóðum upp á dagsferð í rútu frá t.d. Reykjavík en þaðan er um klst.akstur. Hópurinn kemur í golfskálann og getur fengið sér hressingu fyrir golfið eða gönguna og golfarar fara síðan á teig en hinir hefja göngu fyrst að fossinum Glanna og síðan að Paradísarlaut. Þetta er stutt ganga sem bíður upp á að njóta umhverfis árinnar og jafnvel að sjá laxinn stökkva. Við komum aftur að golfskálanum og förum í rútuna og ökum að Hreðavatni og meðfram vatninu að bílastæði í skóginum. Þar hefjum við göngu um skóginn, sem er í fyrstu nokkuð á fótinn, en á hæsta punkti sem heitir „Merkjaborg“ opnast útsýni vítt yfir Borgarfjarðarhérað (í björtu veðri) allt til Eiríksjökuls, Oks og Hlöðufells sem og til Skarðsheiðar og Hafnarfjalls. Fjöllin nær, sem ekki má gleyma eru í sjónsviði, Baula, Grábrók og Hraunsnesöxl og Hallarmúli svo einhver séu nefnd. Eftir að hafa dvalið og virt fyrir okkur útsýnið göngum við varlega niður manngerðan stíg í skóginum og til baka að bílastæðinu. Í allt getur þessi útsýnisferð tekið á þriðju klst. eða ekki langt frá þeim tíma sem tekur að spila níu holur á golfvellinum. Hóparnir hittast svo aftur við golfskálann þar sem í boði verður hamborgaraveisla með tilheyrandi. Kostnaður pr þátttakanda er samtals kr. 5.500 fyrir þá sem velja gönguferðina en kr. 7.700 fyrir þá sem taka hring á vellinum. Upplýsingar og fyrirspurnir í síma 6956692 veitir Viðar Þorsteinsson