Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 9. 2014 | 15:00

GKG: Ágúst fékk ás!

Ágúst Arnbjörnsson, flugstjóri og meðlimur í GKG, fór holu í höggi á 5. braut á Hacienda del Alamo. Ágúst er faðir Elísabetar, 16 ára, og var í foreldrahópi keppniskylfinga GKG, sem staddir voru þar í æfingaferð síðastliðna viku.
Ágúst náði draumahögginu í fyrsta sinn á 5. brautinni, sem er 179 metra löng, og notaði hann hybrid nr. 3 til verksins. Þetta er í fyrsta sinn sem Ágúst fer holu í höggi. “Ég smellhitti boltann og hann leit vel út í loftinu, en við sáum þó ekki hvar hann endaði. Þegar við komum að flötinni sást enginn bolti og við leituðum alls staðar í kring. Þegar ég var svo gott sem búinn að afskrifa boltann þá ákvað ég að kíkja í holuna til vonar og vara, og viti menn, þar lá kúlan á botninum!”

Það er óhætt að segja að GKG kylfingarnir hafi verið höggvissir í ferðinni, en eins og áður hefur verið greint á  heimasíðu GKG, þá fór Sólon Baldvin, 14 ára, holu í höggi fyrr í ferðinni, og Birgir Leifur fékk albatross á par 5 braut. Hópurinn hélt heim á leið í gær og nú er bara að vona að vori snemma hjá okkur svo hægt verði að halda áfram að segja frá góðum höggum kylfinganna.

Heimild: GKG

Texti: Úlfar Jónsson