Golfskáli Golfklúbbs Siglufjarðar að Hóli. Að baki golfskálanum er ein 2. brautin sem er ein sérstakasta braut sem Guðmundur hefir spilað Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 11. 2012 | 20:00

GKS: Framkvæmdir við nýjan Hólsvöll hefjast í sumar á Siglufirði

Nýr og glæsilegur golfvöllur er hluti af áformum um myndarlega uppbyggingu á Siglufirði, sem Fjallabyggð og ferðaþjónustufyrirtækið Rauðka ehf. hafa sameinast um. Munu framkvæmdir við völlinn, níu holur, hefjast í sumar.

Golfklúbbur Siglufjarðar, sem hefur rekið golfvöll í Hólsdal í fjóra áratugi, hefur unnið hugmyndinni brautargengi síðan 2009 og mun flytja starfsemi sína á nýja völlinn við opnun hans 2015, sama ár og Rauðka fyrirhugar opnun á nýju hóteli við gömlu höfnina.

Rauðka, sem hefur á umliðnum misserum staðið fyrir ýmsum nýjungum í ferðaþjónustu á Siglufirði, lýsti snemma áhuga á samvinnu við golfklúbbinn um gerð vallarins með viljayfirlýsingu beggja aðila sumarið 2010. Þessi áform eru nú loks í höfn, þökk sé samhentu átaki þessara aðila og Fjallabyggðar, sem leggur til land undir nýja völlinn auk 16 milljóna króna í þágu frágangs á gamalli malarnámu, sem staðið hefur ófrágengin um árabil en fær nú fegurri ásýnd og nýtt hlutverk sem golfvöllur og útivistarparadís. Önnur fjármögnun kemur frá Rauðku, en áætlaður kostnaður við gerð vallarins og ýmissa almennra úrbóta sem honum fylgja er um 100 milljónir króna

Ingvar Hreinsson, formaður GKS. Mynd: Golf 1

Útivistar- og ferðamannaparadís

„Við erum að sjálfsögðu himinlifandi með að nýi völlurinn skuli nú vera í sjónmáli,“ segir Ingvar Hreinsson, formaður Golfklúbbs Siglufjarðar. „Það er virkilega spennandi að taka þátt í uppbyggingu sem á sér vart hlistæðu á Íslandi. Rauðku ehf., með Róbert Guðfinnsson í fararbroddi, er með þessum áformum að takast að gera Siglufjörð að útivistar- og ferðamannaparadís,“ segir Ingvar, sem hefur ásamt Ólafi Kárasyni unnið með yfirvöldum, Rauðku og fleirum fyrir hönd GKS. Meðal annarra verkefna í heildaráætlun Rauðku og Fjallabyggðar eru frekari uppbygging skíðasvæðisins og fegrun opinna svæða.

Völlurinn er hannaður af Edwin Roald og felur hönnunin í sér ýmsar aðgerðir sem ætlað er að endurheimta vistkerfi í og við Hólsá og Leyningsá, sem hnignað hafa í kjölfar efnistöku. Er t.d. fyrirhugað að endurheimta glötuð búsvæði bleikju og skapa þannig sóknarfæri í stangveiði. Á sama hátt er áhugi fyrir frekara samtarfi við Skógræktarfélag Siglufjarðar og fleiri aðila sem geta notið útivistar í Hólsdal.

„Verkefnið í Hólsdal er skólabókardæmi um það hvernig golfleikurinn eða golfhreyfingin getur með frumkvæði sínu stuðlað að kærkomnum landbótum, endurheimt vistkerfa og lagt grunn að fjölnota útivistarsvæðum sem nýtast ekki aðeins kylfingum, heldur flestum sem áhuga hafa á hvers kyns útivist, sem og lífríkinu í heild. Þarna er golfið sannarlega á réttri hillu til framtíðar, nú þegar hugsun heimsbyggðarinnar verður sífellt gagnrýnni hvað varðar ráðstöfun á landi, sem er auðvitað takmörkuð auðlind,“ segir Edwin Roald um fyrirhugaðan golfvöll á Siglufirði.

Heimild: gks.fjallabyggd.is