Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 3. 2011 | 17:00

GO: Glóboltamótið – úrslit

Þann 24. september 2011 fór fram hjá Golfklúbbnum Oddi nokkuð sérstakt golfmót: Glóboltamótið.  Mótið var sérstakt að því leyti að spilað var á laugardagskvöldi í niðamyrkri, 10 lið – 4 saman í liði, með glóandi hálsmen (til þess að sjást betur í myrkrinu) og glóandi golfbolta að vopni á „glóandi“ Urriðavelinum, en hann var lýstur upp með ljósstikum.

Golf 1 var að sjálfsögðu á staðnum og má með sanni segja að Urriðavöllurinn hafi meira líkst upplýstri flugbraut að nóttu til en nokkru öðru. Þetta var tilkomumikil sjón og mótið í alla staði glæsilegt og vel heppnað.

Þátttakendur í Glóboltamóti GO - 24. september 2011

Umsjón með móthaldi höfðu þeir Nikulás Kr. Jónsson og Svavar Geir Svavarsson í Golfklúbbnum Oddi.

Aðspurður um Glóboltamótið hafði Svavar Geir eftirfarandi að segja:

„Við settum upp ljósavöll á holum 10 – 18, ljós voru sett á rauða og gula teiga, meðfram öllum brautum, ofan í bunkera ef þeir voru í leik á leið og settum ljós í kringum hvert grín og lýstum upp stöngina og holuna. Ræst var út á öllum teigum og tóku 10 lið þátt, áætlað var að hefja leik klukkan 8:30 og leikið var í 4ra manna liðum með texas fyrirkomulagi þar sem allir fengu að reyna sig við öll högg. Keppendur fengu hressingu við komuna en boðið var upp á súpu fyrir leik og Pizzuveislu eftir leik og drykk. Hver leikmaður fékk teiggjöf, sem innhélt vasaljós, bolta, glóstykki fyrir boltann og glóstykki til að vera með um hálsinn ásamt því að hvert lið fékk með sér smá hressingu. Keppendur gátu svo keypt sér auka bolta og skilað ónotuðum en þeir sem keyptu notuðu flestir aukabolta eflaust frekar af þeirri ástæðu að þeir nentu ekki að leita frekar en að hann myndi ekki sjást á því svæði sem líklegt væri að hann hefði fundið sér aðsetur.

Keppnin gekk vel fyrir sig og skemmtilegt var að sjá hversu margir höfðu heyrt af þessu og lögðu leið sína að vellinum til að sjá hvernig þetta færi fram, ég hafði það eftir einum vegfaranda að honum hefði þótt skemmtilegt að sjá ljósin ganga eftir vellinum (þ.e. hálsmenin sáust vel). Keppendur voru um 3 tíma að ganga völlinn í myrkrinu og veðrið var gott nema kannski síðasta hálftímann að aðeins fór að hvessa og dropa á keppendur sem þó höfð ekki orð á því þar sem gamanið hafði tekið völdin. Til að flýta leik var ákveðið að hafa ekki nándarverðlaun eða keppni í nákvæmasta höggi og var í staðinn ákveðið að veita öllum liðum verðlaun sem vakti lukku viðstaddra. Við erum staðráðnir að halda svona mót aftur og reynsla sem við fengum út úr því að halda þetta  mót mun nýtast okkur á næsta ári.“

Úrslit í Glóboltamótinu urðu annars þessi:

1.sæti Setbergsmenn (Aron Bjarni Stefánsson,GSE;  Adam Örn Stefánsson, GSE; Fannar Jónsson, GSE og Stefan Mickael Sverrisson, GSE) spiluðu á 65 höggum og voru með 3 í forgjöf, 62 nettó.

2. sæti „The Dark Force” (Svavar Geir Svavarsson, GO;  Róbert Atli Svavarsson, GO; Þór Pálsson , GO og Jón Ævarr Erlingsson, GO) spilaði á 70 höggum og var með 7 í forgjöf, 63 nettó. 

3. sæti „Ninjurnar” (Páll Guðmundsson, GÞH; Jóhann Björgvinsson, GÞH; Jón Björn Eysteinsson, GR og Edgar Konráð Gapunay, GKG) með 6 í forgjöf og spiluðu á 72 höggum, 66 nettó.

Önnur lið sem skráð voru til keppni voru: Abacus, Fedex, GG, GK, Guðný Eysteinsdóttir, Keppnis, Prinsar, Royal Odds, Sena, Vignis Vinur og The Glowsticks.