Mómýri 2. braut á nýjum, stærri 14 holu Svarfhólsvelli
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 24. 2024 | 22:00

GOS: Svarfhólsvöllur stækkar

Í dag, 24. ágúst 2024, náðist merkur áfangi í sögu Golfklúbbs Selfoss, en þá stækkaði völlur félagsins, Svarfhólsvöllur, úr 9 holu golfvelli í 14 holu golfvöll.

Nýi hringurinn hefur tvisvar viðkomu á nýja svæðinu, fyrst á 2. og 3. braut, og aftur á holum 11-13.

Hér fyrir neðan er mynd af hinni nýju 12. braut, sem er par-3-hola meðfram Rauðalækjarós, þar sem samnefndur lækur rennur í Ölfusá. Brautin ber nafnið Rauðalækur.

Hin nýja 12. braut á Svarfhólsvelli – Rauðalækur.  Mynd: GOS

Nýja 13. brautin heitir Móholt. Hér að neðan má sjá mynd af flöt brautarinnar, sem er svo sem sjá má stór og falleg. Myndin er  af nýja svæðinu, frá 13. flöt í átt að Skiphól, þar sem 11. flöt og 12. teigur eru. Sjá má að vallarstarfsmenn voru í óða önn að slá brautir í dag.

Flötin á Móholti, nýju 13. brautinni á Svarfhólsvelli

Það var Edwin Roald, sem hafði yfirumsjón með breytingavinnu og hönnun á nýja 14. holu Svarfhólsvellinum.

Nú á eftir að bæta 4 holum við og þá er Svarfhólsvöllur orðinn 18 holu glæsivöllur!

Svo er bara að bruna á Selfoss og prófa nýju 14 holu herlegheitin, áður en vetur konungur skellur á!!!

Í aðalmyndaglugga: Ný 2. braut, Mómýri, sem er  par-3-hola, allt að 142 m, með Ölfusá og Ingólfsfjall áberandi í bakgrunni.