Ragnheiður Jónsdóttir | október. 13. 2012 | 18:00

GR: Skipulagsbreytingar í unglingastarfinu

Eins og kynnt hefir verið hefir verið ákveðið að ráðast í skipulagsbreytingar á unglingastarfi Golfklúbbi Reykjavíkur (GR) þannig að fækkað verður verulega í afrekshópum. Almennir hópar munu fá sömu þjónustu og réttindi og afrekshópar höfðu áður.

Í unglingastarfinu hjá GR voru langflestir orðnir í afreksstarfi þannig að skiptingin í almennt starf og afreksstarf var ekki raunverulega til staðar og missti algerlega marks. Afrekshópurinn stóð því ekki lengur undir nafni. Þess vegna var ákveðið að taka alla inn í starfið eins og það var skilgreint sem afreksstarf áður, þannig að þeir fáu sem eftir voru í almenna starfinu fá nú t.d. fría bolta til að æfa sig, þrjár æfingar í viku o.s.frv. Einnig verða nokkrir krakkar sem verða í svokölluðum afrekshóp sem ætlunin er að reyna að veita meiri þjónustu með einhverjum hætti ef kostur er.

Breytingin felur ekki í sér skref afturábak fyrir neinn í unglingastarfinu heldur felst í henni skref framávið fyrir alla. Það verður mun erfiðara að komast í afrekshópinn enda um margfalt færri sæti að ræða en áður og vonandi verður hart barist um þau. Við væntum þess að það leiði til þess að þeir sem mestan metnað hafa leggi mun harðar að sér en áður til að komast á toppinn, hvort sem þeir byrja í afrekshóp eða ekki. Allir í unglingastarfinu fá góða umgjörð til að æfa eins mikið og þeir vilja undir stjórn vel menntaðra þjálfara.
Tilgangurinn með skipulagsbreytingunum er að bæta enn gæðin í unglingastarfinu. Við teljum að með breytingunni muni verða alvöru barátta um að komast í afrekshóp sem þótti sjálfsagt áður. Sú barátta mun leiða til þess að þeir sem vilja ná langt leggi meira á sig og þar með muni bæði þeir sjálfir og Golfklúbbur Reykjavíkur bæta árangur sinn bæði til lengri og skemmri tíma.

Heimild: grgolf.is