Haukur Örn Birgisson varaforseti GSÍ og frambjóðandi í forsetakjöri GSÍ: „Það þarf að gera ákveðnar breytingar“
Þegar ég tók ákvörðum um að sækjast eftir því að verða kjörinn forseti Golfsambands Íslands fór ég að heyra þessa setningu endurtekna. Nokkrir hafa sagt við mig að ég þurfi að beita mér fyrir breytingum, ætli ég mér að verða kjörinn forseti sambandsins. Ég er sammála því.
Hinn almenni kylfingur
Hér þarf að gera ákveðnar breytingar. Golfhreyfingin samanstendur af hinum almenna kylfingi sem heldur uppi starfi golfhreyfingarinnar, hvort sem það er starf klúbbanna eða golfsambandsins. Hinn almenni kylfingur ýmist borgar brúsann eða leggur til vinnuna, nánast undantekningarlaust í sjálfboðavinnu. Rúmlega 99% af félagsmönnum í golfhreyfingunni má setja í hóp hins almenna kylfings. (Af 16.602 félagsmönnum eru einungis 72 kylfingar með lægri forgjöf en 3,0.) Með þessu er ég ekki að gera lítið úr starfi afrekskylfinga, heldur eingöngu benda á að hinn almenni kylfingur hefur ríka hagsmuni af því hvernig fjármunum hans er varið. Hann á skilið að fjármununum sé varið í góða þjónustu við sig.
Niðurstaða stefnumótunarvinnu innan golfhreyfingarinnar undanfarin tvö ár leiddi eitt í ljós, umfram annað: Að starf golfhreyfingarinnar eigi að skipuleggja í ríkari mæli með hag hins almenna kylfings að leiðarljósi. Þetta er áhugavert og ekki má framhjá þessu líta. Þetta felur það í sér að golfsambandið þarf að forgangsraða með þeim hætti að fjármunum og starfskröftum sé frekar varið í hinn almenna kylfing, á kostnað annarra verkefna. Það má segja að þetta sé eðlileg krafa til golfsambandsins sem endurspeglar samsetningu félagsmannanna.
Hins vegar er það alveg á hreinu að golfhreyfingin á að hafa metnaðarfull markmið í afreksmálum og fylgja þeim eftir, eftir því sem best verður á kosið og fjármagn leyfir hverju sinni. Útbreiðsla og kynning á golfíþróttinni helst nefnilega í hendur við gott gengi íslenskra kylfinga í keppni við þá bestu. Árið 2011 samþykkti golfþing sérstaka afreksstefnu og mikilvægt er að fylgja þeirri stefnu eftir.
Börn og unglingar
Hér þarf að gera ákveðnar breytingar. Golfsambönd í Evrópu hafa öll glímt við fækkun skráðra félagsmanna á undanförnum árum. Þessu hefur, sem betur fer, verið öfugt farið á Íslandi og frá aldamótum hefur skráðum kylfingum fjölgað úr 8.500 í tæp 17.000. Þetta er stórkostlegur árangur sem golfklúbbarnir og hreyfingin í heild eiga heiðurinn af. Það eru hins vegar ákveðin teikn á lofti um samdrátt í félagafjölda, sérstaklega hjá börnum og unglingum. Við þessu þarf að sporna undir eins og alls ekki má sofna á verðinum. Það á að vera eitt helsta markmið golfhreyfingarinnar að efla barna- og unglingastarf, t.a.m. með samstarfi við grunnskóla í öllum sveitarfélögum. Mikilvægt er að golfsambandið haldi áfram að bjóða börnum og unglingum upp á skemmtilega valkosti í mótamálum og reynt verði að finna leiðir svo enn fleiri þátttakendur geti verið með. Það á aldrei að þurfa að vísa ungum kylfingum frá golfmóti vegna plássleysis.
Samstarf við klúbba
Hér þarf að gera ákveðnar breytingar. Golfklúbbarnir mynda golfsambandið. Þannig er golfsambandið miðstöð golfklúbba á Íslandi og þangað eiga þeir að geta leitað með viðfangsefni sín og áskoranir. Golfklúbbar hafa ólíkar áherslur og kröfur þeirra gagnvart golfsambandinu eru ekki endilega þær sömu. Það er engu að síður mikilvægt að klúbbarnir viti að þeir geta ávallt sótt stuðning til golfsambandsins og að vel sé tekið á móti þeim.
Nauðsynlegt er að gera golfsambandið að skilvirkari samráðsvettvangi golfklúbba. Það er unnt að gera með auknum fundahöldum yfir vetrarmánuðina, sem hingað til hafa ekki verið nógu vel nýttir til skrafs og ráðagerða.
Verkefni golfsambandsins eru mörg og mikilvæg. Golfsambandið hefur úr takmörkuðum fjármunum að ráða og því er mikilvægt að forysta hreyfingarinnar forgangsraði markmiðum sínum. Fyrir dyrum golfþings stendur að ákveða verkefni næstu tveggja ára og það er alveg ljóst að hugmyndir allra geta ekki orðið ofan á. Það er engu að síður mikilvægt að golfhreyfingin, með forseta golfsambandsins í fararbroddi, fylki sér á bak við þau verkefni sem verða fyrir valinu og gangi saman í takti að sameiginlegum markmiðum hreyfingarinnar.
Með von um stuðning ykkar til góðra verka,
Haukur Örn Birgisson,
varaforseti GSÍ
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024