Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 26. 2014 | 11:00

Hvaða risamót eru best?

Í vitund margra skiptast risamótin 4 niður á eftirfarandi máta: The Masters er „fallegasta“ risamótið; Opna breska er „sögufrægasta“ risamótið þ.e. það risamót með ríkustu hefðina; Opna bandaríska er „erfiðasta“ risamótið (í þessu risamóti er yfirleitt keppt við erfiðar aðstæður, slæmt veður um hásumar þ.e. ofboðslegan hita oft á tímum, auk þess sem völlurinn er yfirleitt níðingslega erfitt settur upp – sama hvar spilað er) þannig að yfirleitt eru lág skor hjá súperstjörnum golfsins sjaldséð og loks er „léttasta“ risamótið PGA Championship.

Þannig að þegar fólk er spurt að því hvert sé uppáhaldsrisamótið eða hvaða risamót þeim finnist best þá skipta flestir sér niður á milli The Masters eða Opna breska.  Ef raða á risamótunum 4 upp í röð eftir hvað fólki finnst best þá er röðin yfirleitt þessi:

Opna breska 1; The Masters 2; Opna bandaríska 3; PGA Championship 4 EÐA The Masters 1; Opna breska 2; Opna bandaríska 3; PGA Championship 4.

Svörin hjá aðspurðum kylfingum ráðast oft af landfræðilegri legu þeirra – þannig eru meiri líkur á að evrópskur kylfingur setji Opna breska í fyrsta sæti meðan meiri líkur eru á að bandarískir kylfingar segi  að The Masters sé best, þótt undantekningar séu á hvorutveggja. Reyndar er Opna breska eina risamótið ef út í það er farið sem haldið er utan Bandaríkjanna.

Vísa mætti í fjölmargar kannanir sem gerðar hafa á ofangreindu til staðfestu.  Hér skal einungis minnst á eina en sú var gerð árið 2012 af Sports Illustrated í Bandaríkjunum.  Þar voru 50 stórstjörnur PGA Tour spurðar að því hvaða risamót þær vildu helst vinna.  50% aðspurðra sögðu að þeir vildu fremur sigra á The Masters og 25% að þeir vildu fremur sigra á Opna breska.

Og nú hefst The Masters einmitt eftir tæpar 3 vikur með alparósunum sínum, sínum glæsilega sólbakaða velli, Amen Corner, hvítu kaddýsamfestingunum, Græna jakkanum, ostasamlokum (fyrir þá sem horfa á mótið fyrir framan sjónvarpsskjáinn heima skal gefin hér á Golf 1 uppskrift að þeirri vinsælustu á The Masters þegar nær dregur mótinu). Síðan má heldur ekki gleyma Magnolia Lane.

En er the Masters besta risamótið?

Það sker sig frá hinum risamótunum í því að það hefir fastan mótsstað: Augusta National, meðan meira flakk er á hinum mótunum, sem alltaf eru haldin á nýjum og nýjum völlum; þó til sanns vegar megi færa að St. Andrews sé einskonar heimavöllur Opna breska.

Lokið augunum og reynið að sjá fyrir ykkur draumagolfvöllinn. þ.e.a.s. nokkurs konar „happy place“ þ.e. hamingjustað í huga ykkar.  Er það virkilega vindasamur, blautur, kaldur linksari eða er það hinn fullkomni þröngi skógarvöllur með fallegum blómum og trjám eins og Augusta National?

Skiptir röðin á risamótunum ykkur máli?  The Masters boðar í rauninni upphaf golftímabilsins hjá svo mörgum eftir erfiðan næstum golflausan vetur (utandyra a.m.k. hér á Íslandi).  Allir sannir kylfingar orðnir golfþyrstir og kannski sálfræðilegt að Masters verði ofan á umfram Opna breska (ef við gefum okkur að valið standi milli þeirra risamóta).

Sumir segja að þeir fylgist betur með The Masters en öðrum risamótum; þegar þau fari fram séu viðkomandi sjálfir á kafi í golfi.

Hér verður ekkert svar veitt við spurningunni hvaða risamót sé best.  Um það er ekkert hægt að alhæfa. Hægt væri að gera könnun og myndi sú könnun aðeins gefa mynd af smekk takmarkaðs úrtaks kylfinga.  Næsta úrtak myndi e.t.v. svara allt öðruvísi.

Í rauninni eru öll 4 risamótin yndisleg, öll á sinn hátt og við kylfingar sérstaklega heppnir að eiga þau öll eftir á þessu ári!!!