Cristie Kerr, fyrrum nr. 1 á Rolex-heimslistanum, sem spilaði meidd á úlnlið á Solheim Cup 2011
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 29. 2011 | 16:00

Hver er kylfingurinn: Cristie Kerr?

Bandaríski kylfingurinn Cristie Kerr er í uppáhaldi hjá mörgum.  Því fannst mörgum sárt þegar hún var orðin svo þjáð af úlnliðsmeiðslum á Solheim Cup í tvímenningnum s.l sunnudag að hún gaf leik sinn á móti Karen Stupples – Margir Bandaríkjamenn efast ekki um að ef hún hefði verið ómeidd hefði staðan orðið 14:14 en ekki 15:13 og telja þeir lið Evrópu hafa hagnast á meiðslum Kerr.  Rosie Jones, fyrirliði bandaríska liðsins hefir sætt töluverðri gagnrýni fyrir að láta Kerr spila meidda alla dagana.

Rosie huggar Cristie á Solheim Cup

En Rosie sér ekki eftir að hafa látið Cristie spila og segir það hafa verið að ósk og í samvinnu við Cristie allan tímann að láta hana spila sbr. t.d. góða grein á Sky Sports, sem heitir „No Kerr regrets for Jones” og lesa má með því að smella HÉR:

En hver er kylfingurinn Cristie Kerr?

Cristie Kerr fæddist í Miami, Flórída, 12. október 1977 og verður því 34 ára í næsta mánuði. Hún byrjaði að spila golf 8 ára og við 12 ára aldurinn var forgjöf hennar komin niður í 2.

 

Áhugamannaferill hennar var sigrum stráður, hún vann m.a. Junior Orange Bowl International Golf Championship, árið 1994 og var valin AJGA (American Junior Golf Association) ungkylfingur ársins 1995.

Árið 1996 spilaði hún í Curtis Cup og sem áhugamaður tók hún þátt í Opna bandaríska kvennamótinu 1996.

Cristie útskrifaðist frá Miami Sunset High School í West Kendall 1995.

Árið 1996 gerðist hún atvinnumaður í golfi og lék bæði á Futures túrnum og Players West-túrnum. Fyrsta sigur sinn sem atvinnumaður vann hún á Ironwood Futures Classic-mótinu árið 1996. Síðla árs 1996 var hún jöfn öðrum í 6. sæti í LPGA Final Qualifying Tournament (Q-school) og fekk undanþágu til að spila í LPGA-mótaröðinni, árið 1997.

Cristie Kerr

Ferill hennar á LPGA-mótaröðinni byrjaði hægt. Það tók hana 3 ár að ná að verða meðal topp 50 á peningalistanum. Árið 2002 vann hún í fyrsta sinn á LPGA-mótaröðinni, þ.e. í Long Drugs Challenge. Árið 2004 var hún með fremstu kylfinga á túrnum, eftir að hafa unnið 3 sigra og lent í 5. sæti á peningalistanum. Hún vann tvo sigra á mótum, árið 2005 og færðist í 3. sæti peningalistans. Hún varð jöfn annarri í 2. sæti á Opna bandaríska kvennamótinu árið 2000 en eins lent hún í 2. sæti á Opna breska, 6 árum síðar, árið 2006. Fyrsti sigur hennar árið 2006 var á Franklin American Mortgage Championship, þar sem hún setti met með því að spila 19 undir pari.  Hún vann tvö mót á LPGA í fyrra; LPGA State Farm Classic þar sem hún átti 1 högg á Önnu Nordqvist og Na Yeon Choi. Og tveimur vikum síðar 27. júní 2010 sigraði hún á 2. risamóti sínu LPGA Championship og setti nýtt met þar eð 12 högg skyldi að hana og Song-Hee Kim sem varð í 2. sæti. Þessi munur er sá mesti á 1. og 2. sæti í risamóti á LPGA. Við sigurinn komst Cristie í 1. sæti Rolex-heimslistans.

Í dag hefir Cristie Kerr unnið 14 sigra á LPGA-mótinu og 18 sigra alls, sem atvinnumaður.  Árið 2006 var hún eini Bandaríkjamaðurinn til að vinna  mót oftar en 1 sinni á LPGA-mótaröðinni (árið 2006 unnu Bandaríkjamenn einungis 7 mót af 33 sem haldin voru á mótaröðinni). Árið 2007 vann hún United States Woman´s Open Championship, sem var fyrsti sigur hennar í risamóti. Hún var einnig í liði Bandaríkjamanna í báráttunni um Solheim Cup árið 2002, 2003, 2005, 2007 og 2009 og nú síðast 2011.

Það sem stendur upp úr í golfleik Cristie Kerr eru púttin; hún var meðal 5 efstu á LPGA túrnum 2005 og 2006 í að pútta og hitta flatir með járnum. Árið 2005 var hún í 5. sæti þeirra kvenkylfinga til að hitta flatir “in regulation.” Hún er einnig meðal högglengstu kvenkylfinga á LPGA-mótaröðinni, þótt nokkrar högglengri stúlkur en hún fyrirfinnist þar í dag.

Cristie Kerr

Árið 2003 fékk Cristie Kerr sér Callaway Golf kylfur, eftir að hafa leikið með sömu kylfum undanfarin 7 ár og þessi breyting leiddi til mun betri árangurs hennar, aukinna sigra og peningaverðlauna á LPGA-túrnum. Árið 2005, var Cristie meðal 10 efstu í helmingnum af þeim mótum, sem hún tók þátt í og var í 2. sæti í meðaltalsskori á LPGA, á eftir Anniku Sörenstam.

Kerr er þekkt fyrir að safna peningum til stuðnings brjóstkrabbameinsrannsóknum. LPGA og Susan G. Komen brjóstakrabbameinssjóðurinn veittu Cristie LPGA Komen viðurkenninguna 2006, fyrir vel unnin störf á því sviði, en hún stofnaði m.a. sjóð, sem nefndur er “Birdies for Breast Cancer.” Cristie gefur $50 fyrir hvern fugl sem hún fær. Í ágúst á síðasta ári höfðu safnast um $ 750.000 í gegnum frjáls framlög og góðgerðaruppákomur. Cristie Kerr stofnaði sjóðinn í nafni móður sinnar, Lindu, sem hefur verið helsti hvatamaður hennar. Sjóðurinn var stofnaður árið 2003, þegar móðir Cristie, Linda var greind með brjóstakrabba.

Cristie Kerr fyrir megrunina

Cristie er 1.60 m á hæð og vegur nú í dag 57 kg, en á árinu 1999 var hún 79 kg, sem olli henni m.a. bakverkjum. Foreldrar hennar sem eru fráskildir eru báðir sykursjúkir og móðir Cristie, Linda, fékk hjartaáfall þegar Cristie var í 9. bekk í barnaskóla. Cristie fór því að stunda líkamsrækt reglulega og árið 2002 hafði hún lagt af um 20 kíló. Það ár fór henni líka fram í golfinu.

Á LPGA-túrnum eru Natalie Gulbis og Morgan Pressel bestu vinkonur Cristie Kerr og eins er Donald Trump mikill vinur hennar. Cristie tók, árið 2005, þátt í sjónvarpsþáttaröð Trumps “The Apprentice.”

Árið 2006 giftist Cristie, Erik Stevens, sem er yfirmaður fyrirtækis sem er að þróa íþróttamiðstöð í Brooklyn, New York. Cristie og Erik búa bæði í Scottsdale í Arizona og í New York.

Aðalstuðningsaðili Cristie er Mutual of Omaha-bankinn, sem m.a. styður við bakið á brjóstakrabbameins- rannsóknarsjóði hennar, en það er partur af auglýsingasamningi hennar við bankann. Aðrir stuðningsaðilar Cristie eru Callaway, Titleist, (en hún notar Pro V1 boltana frá því merki), Footjoy og Lacoste.

Heimild: Wikipedia – Hér er að hluta um að ræða þýðingu greinarhöfundar, sem hefir birst áður þ.e. árið 2010 á iGolf.is – en birtist hér í uppfærðri og endurbættri útgáfu.