Ha Neul Kim, golfdrottning Suður-Kóreu s.l. tvö ár 2011 og 2012!
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 28. 2013 | 06:30

Hver er kylfingurinn: Ha-Neul Kim?

Ha Neul Kim leiðir á 3. risamóti ársins, US Women´s Open eftir 1. dag, er 1 höggi á undan nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna, Inbee Park.  Ha Neul er fremur óþekkt nafn hérlendis, þannig að spurning er hver þessi fallegi kylfingur frá Suður-Kóreu sé?

Einkennislitur Ha-Neul Kim er himinblár

Einkennislitur Ha-Neul Kim er himinblár

Ha Neul Kim er fædd 17. desember 1988 og er því 24 ára. Hún komst fyrst á kóreanska LPGA árið 2007, þá 18 ára en hefir einkum blómstrað s.l. 2 ár, með því að hún hefir verið leiðandi á peningalista KLPGA.  Hún vakti fyrst athygli á sér fyrir fegurð, en hún þykir óvenjufalleg og eins fyrir klæðaburð, en einkennislitur hennar er heiðblár en Ha-Neul þýðir einmitt heiðblá á kóreönsku. En síðast en ekki síst er Ha-Neul frábær kylfingur. Alls hefir Ha-Neul sigrað 7 sinnum á KLPGA, m.a. á einu risamóti í Kóreu.

Ha-Neul Kim - nýliði ársins á KLPGA 2007

Ha-Neul Kim – nýliði ársins á KLPGA 2007

Á fyrsta ári sínu á KLPGA varð hún 6 sinnum  meðal 10 efstu í mótum, sem nægði til að hún var valin nýliði ársins í Kóreu.

2008 var ár Ha-Neul á margan hátt. Hún hóf keppnistímabilið með því að landa 3. og 6. sæti í mótum en aðeins á 3. móti ársins, Phoenix Park Classic náði hún 1. sigri sínum á KLPGA.  Aðeins nokkrum vikum síðar bætti hún við 2. sigri sínum á KLPGA, þ.e. á Hill State SeoKyung Open mótinu.  Hún þótti á þessum tíma vera 2. besti kvenkylfingur í Kóreu á eftir Jiyai Shin (fyrrum nr. 1 á Rolex-heimslistanum). En þá birtist á sjónarsviðinu enn annar frábær kvenkylfingur frá Suður-Kóreu, Hee Kyung Seo, sem vann 3 mót í röð og var mikið gert úr samkeppni þeirra beggja Ha-Neul og Hee Kyung í kóreönskum fjölmiðlum. Þær öttu m.a. kappi í Skinnaleik, þar sem Ha-Neul var pöruð með bandaríska PGA leikmanninum Anthony Kim en Hee Kyung fékk frægan kappa af KPGA sem félaga sinn. Anthony og Ha-Neul unnu. Ha-Neul vann líka 3. mót sitt 2008 SK Energy Invitational og náði 2. sætinu á  peningalistanum en Seo bætti um betur og vann 4. titil sinn á árinu og þannig skiptust þær á um að vera í 2. sæti peningalistans í Kóreu.

Tvær góðar saman Inbee Park og Ha Neul en saman unnu þær á Mission Hills

Tvær góðar saman Inbee Park og Ha Neul en saman unnu þær á Mission Hills nú í ár 2013

Kyung Seo hafði betur 2008 og Ha Neul varð að láta sér lynda 3. sætið á peningalista KLPGA það árið.

Árið 2009 var ekki gott keppnistímabil fyrir Ha Neul en hún átti í vandræðum með óstöðuga sveiflu sína af teig. Hún vann ekkert 2009 en varð 7 sinnum meðal 10 efstu í mótum það ár og varð í 7. sæti peningalistans. Hún spilaði líka í nokkrum mótum LPGA en náði t.a.m. hvorki niðurskurði í SBS Open eða Kraft Nabisco og varð síðan meðal 30 efstu á Hana Bank Championship.

Slæma kaflanum var ekki lokið fyrir Ha Neul 2010 en þá var hún aðeins í 21. sæti á peningalistanum þrátt fyrir að hafa 3 sinnum verið meðal efstu fjögurra í mótum. En leikur hennar fór batnandi eftir því sem leið á árið 2010.

Ha-Neul Kim

Ha-Neul Kim

Það leit allt út fyrir að Ha Neul væri komin aftur 2011 þegar hún varð í 8. sæti á móti í apríl – hún vann fyrsta mótið sitt í meira en 2 ár og spilaði vel var nokkrum sinnum meðal 10 efstu í mótum en… náði þess á milli ekki niðurskurði. Hún varð líka í 13. sæti á Hana Bank mótinu, sem var besti árangur hennar fram til þessa í LPGA móti. Stærsta afrek Ha-Neul kom í Hite Cup, sem er 3. risamót ársins á KLPGA.  So Yeon Ryu leiddi þá peningalistan og var líka þáverandi meistari US Women´s Open.  Hún leiddi á Hite Cup fyrstu tvo dagana, en það var samt Ha-Neul Kim sem stóð uppi sem sigurvegari í fyrsta risamóti sínu í lok dags! Frá þeim tímapunkti fór stjarna Ha-Neul rísandi. Hún varð m.a. í 2. sæti í lokarisamóti ársins á KLPGa, KB Financial Star Championship og vann 3. titlil sinn á árinu á EDaily KYJ Golf Women’s Open, en tapaði síðan í bráðabana gegn Young Ran Jo í lokamóti ársins. En árið 2011 var Ha-Neul gott, hún var í fyrsta sinn í 1. sæti á peningalista KLPGA, hún var valin leikmaður ársins og valin vinsælasta golfstjarna Kóreu af áhangendum. Hún hafði yfirburði á öllum sviðum á lokahátið KLPGA 2011, hún var ný golfdrottning Kóreu.

Ha-Neul Kim ausin verðlaunum á uppskeruhátið KLPGA 2012

Ha-Neul Kim ausin verðlaunum á uppskeruhátið KLPGA 2012

Ha-Neul Kim hóf árið 2012 næstum jafnvel og hún hafði lokið við árið 2011. Á fyrsta móti ársins hjá henni, RACV Australian Ladies Masters, átti hún hringi upp á 65-64-67 og var nálægt sigri, en varð að sætta sig við T-2 árangur, sem þó var besti árangur hennar fram til þessa utan KLPGA. Hún var aðeins í 24. og 20. sæti í næstu tveimur mótum sínum á LPGA og varð síðan T-11 á Kraft Nabisco risamótinu, besta árangri hennar í risamóti utan KLPGA.

Ha Neul hélt áfram að spila vel á KLPGA hún var 4 sinnum meðal efstu 5 í mótum, en sigraði ekkert. Hún stóð í skugga nýrrar kóreanskrar stjörnu sem kem fram á þessum tíma, Char Young Kim sem sigraði 2 sinnum á KLPGA og eins 16 ára áhugamanns Hyo Joo Kim, sem hlaut alla athygli á Lotte Mart Women´s Open í Kóreu. En á 2. helmingi keppnistímabilsins gekk Ha Neul betur. Hún vann eina sigur sinn þetta keppnistímabil the Rush & Cash Charity Classic og var enn á ný á toppi peningalistans og auk þess með besta meðaltalsskorið, en var ekki valin leikmaður ársins þetta skiptið.

Meðal markmiða Ha Neul þetta árið 2013 er að verða efst á peningalista KLPGA 3. árið í röð og endurheimta þar með titilinn um leikmann ársins.  Spurningin er aðeins hvort henni takist í millitíðinni að sigra á 3. risamóti ársins á LPGA? … hún byrjar nú nógu vel!

Ha Neul Kim í Men´s Health Magazine

Ha Neul Kim í Men´s Health Magazine

Loks mætti geta þess að meðal helstu styrktaraðila Ha Neul eru kortafyrirtækið BC Cards og franski sportvörurisinn Le Coq Sportif. Eins hefir Ha Neul setið fyrir hjá Men´s Heath Magazine.

Sjá má auglýsingu sem Ha Neul lék í fyrir Le Coq Sportif með því að SMELLA HÉR (Ha Neul er í ljósbláu) og eins má sjá hana í auglýsingu fyrir nokkuð sem heitir Birdie Phone með því að SMELLA HÉR: